145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í fréttum RÚV í gærkvöldi og nú aftur í dag berast okkur þær fregnir að rannsóknarnefnd flugslysa hafi til rannsóknar þrjú tilvik alvarlegra veikinda hjá meðlimum í áhöfn flugvéla Icelandair. Við þetta er því að bæta að nokkrir tugir annarra tilvika hafa auk þess verið tilkynnt, samkvæmt upplýsingafulltrúa Icelandair.

Einhverra hluta vegna er það þannig samkvæmt vinnuverndarlöggjöf, nr. 46/1980, að fólk er vinnur í háloftunum og úti á sjó er undanskilið þeirri löggjöf. Í 2. gr. þeirra laga eru siglingar og loftferðir sérstaklega undanskildar. Eftir því sem ég fæ best séð koma engin önnur lög í staðinn og staðan er því sú að ekki er til vinnuverndarlöggjöf fyrir þessar stéttir. Það er þó til ein reglugerð hjá Samgöngustofu sem hefur að gera með ráðstafanir til að stuðla að bættu öryggi og heilsu flugverja. Gallinn við hana er hins vegar sá að samkvæmt henni á flugrekandi sjálfur að miklu leyti að bera ábyrgð á eftirlitinu með flugöryggisteymi sínu. Flugfélögin eiga sum sé að hafa eftirlit með sjálfum sér hvað vinnuvernd starfsmanna þeirra varðar, a.m.k. almennt séð. Mér finnst full ástæða til að þingið taki þetta til nánari skoðunar. Af hverju er ekki til vinnuverndarlöggjöf fyrir þessar stéttir? Þær standa undir því að færa okkur hvað mestar gjaldeyristekjur í þjóðarbúið með innflutningi á ferðamönnum og veiði og sölu á fiski. Það á ekki að vera val eða tilfinning hjá stjórnendum Icelandair hvort og þá hvernig þeir skipta t.d. um loftsíur í flugvélum sínum, en tilfellið er að það er mjög kostnaðarsamt. Um þetta eiga auðvitað að gilda opinberir ferlar og opinbert eftirlit.


Efnisorð er vísa í ræðuna