145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Nú eru börnin í landinu að ganga til starfa. Grunnskólinn er byrjaður með allri þeirri gleði og fjöri sem honum fylgir. Sveitarfélögin vilja greiða fyrir blýantana og strokleðrið og yddarana. Ég heyrði það hjá forseta bæjarstjórnar í Kópavogi að það mundi kosta sveitarfélagið 50–60 milljónir. Í mínu sveitarfélagi á Höfn mundi það kosta 5–6 milljónir. Í Reykjanesbæ er 12 ára tápmikill drengur sem elskar blómin og fuglana og náttúruna alla. Hann skrifar og reiknar og er duglegur í skólanum. En hann talar ekki íslensku. Hann er að byrja í sjöunda bekk. Hann er heyrnarlaus og hann hefur aldrei fengið námsbók til að læra íslensku allan skólaferilinn. Foreldrarnir gengu í það að fá tilboð í námsbækur. Þá kom í ljós að bækurnar sem hann átti að nota í skólanum, og þau völdu fimm bækur, mundu kosta 6 milljónir. Það vill enginn borga bækurnar. Á Íslandi eru fjögur börn heyrnarlaus sem fá ekki námsbækur til að læra móðurmálið sitt. Móðurmálið er auðvitað táknmálið en þau geta ekki setið fyrir framan sjónvarpið og lesið íslenskan texta. Þau geta ekki lesið bækur eða notað tölvur því að þau kunna ekki íslensku. Við höfum ekki skapað þeim aðstöðu í skólum landsins til að læra móðurmálið okkar. Mér finnst að við á hinu háa Alþingi og þær stofnanir sem eiga við þessi mál þurfum að hysja upp um okkur buxurnar. Við þurfum að skammast okkar í smá tíma og koma þessum málum þannig fyrir að öll börn á Íslandi læri íslensku.


Efnisorð er vísa í ræðuna