145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að koma hér upp og ræða lögreglunámið sem Háskólinn á Akureyri mun sinna og ræða það á heldur öðrum nótum en hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir gerði. Ég verð að segja að mér var allt að því misboðið undir ræðu hennar. Mér finnst það viðhorf alveg hreint með ólíkindum að ef eitthvað sé úti á landi þá hljóti það að vera á einhvern hátt slakara. Við höfum aldrei fett fingur út í það þótt hér hafi áratugum saman verið háskóli á höfuðborgarsvæðinu þangað sem nemar af landsbyggðinni hafa sótt sér nám suður og ekki þótt neitt tiltökumál og hreinlega eitthvað sem víkkar sjóndeildarhringinn og fólk hefur gott af. Það væri náttúrlega hræðilegt ef einhver þyrfti að flytja til Akureyrar í tvö, þrjú ár og sinna námi þar. Þvílík örlög.

Ég frábið mér svona málflutning. Ég ætlaði ekki að taka svona sterkt til orða, en ég bara get ekki annað eftir að hafa hlustað á þessa ræðu.

Það er kannski rétt hjá hv. þingmanni að það hvernig staðið var að flutningi Fiskistofu var ekki gott. Það var síðan bakkað aðeins með það. Ég hef heimsótt Fiskistofu. Það gengur mjög vel að ráða þar hæft fólk. Það er ekkert að starfseminni þar. Ég geri þá kröfu að fólk kynni sér málin áður en það fer að (VBj: En matsnefndin?) halda slíku fram. Já, mér finnst það gott hjá hæstv. ráðherra að fá matsnefnd, ég held að það sé ekkert alltaf gert. Matsnefndin kemst að því að þrír skólar séu hæfir. Ég held að það sé alveg sama hvaða nám við mundum leggja mat á, Háskóli Íslands væri alltaf hæfastur. Hann er einfaldlega stærstur, með mesta „bakköppið“, með flesta kennarana, með mesta stuðninginn, en þá spyr ég: Eigum við bara að hafa allt nám í Háskóla Íslands? (Gripið fram í: Jú.) Já, þá skulum við bara ákveða það. Þá skulum við taka þá meðvituðu ákvörðun að við ætlum öll að hrúgast hingað á suðvesturhornið og búa hér. Eða eigum við að taka þá ákvörðun að við ætlum að byggja upp þetta land? (Gripið fram í.) Háskólinn á Akureyri er þekktur fyrir að vera með mjög gott fjarnám. Það þarf kannski bara enginn að flytja. (VBj: Þá verður þetta fjarnám.)(Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég hafði undirbúið aðra ræðu en ég flutti hér, ég flyt hana kannski síðar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna