145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er ekki vanalegt að forseti blandi sér í þessar umræður, en spurningunum var fyrst og fremst beint til forseta og er honum ljúft að svara þeim. Forseti hefur í sjálfu sér ekki farið í það að skoða allar dagskrár langt aftur í tímann til þess að geta svarað hv. þingmanni til hlítar, en hitt veit forseti að það er alvanalegt þegar svo stendur á í störfum þingsins að ekki liggja mörg mál fyrir að þá sé vikið út frá starfsáætlun í þeim skilningi að felldir eru niður þingfundir og t.d. settir á þingnefndafundir í staðinn.

Það var ætlun forseta að hér færu fram atkvæðagreiðslur í dag jafnframt því sem þessi umræða færi fram. Forseti hefur lagt sig fram um að tryggja að bæði dagskrárliðir eins og störf þingsins og óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra geti farið fram vegna þess að forseti leggur mikla áherslu á það að hinar pólitísku umræður geti farið fram í sölum þingsins eins og eðlilegt er. Þess vegna var það niðurstaða forseta að halda sig við dagskrá fundarins í dag. Í ljós kom hins vegar að það eru allmargar fjarvistir þingmanna af eðlilegum ástæðum, m.a. vegna skuldbindinga þingmanna í alþjóðanefndum sem eru líka hluti af störfum okkar alþingismanna og sömuleiðis skuldbindingar í kjördæmum sem forseti telur líka mikilvægt að þingmenn geti rækt og sinnt. Þess vegna eru ekki atkvæðagreiðslur í dag.

Á morgun fara fram umræður þar sem annars vegar eru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra og hins vegar fer fram sérstök umræða sem forseti hefur líka lagt sig í líma við að geti komist á og séu hér a.m.k. tvisvar til þrisvar í viku, sé það á annað borð gerlegt. Þingfundum verður síðan væntanlega lokið um hádegisbilið á morgun, þá skapast rými fyrir þingnefndir.

Alþingi hefur starfað mjög vel frá því að það kom saman, fyrst til nefndafunda og síðan þingfunda, í ágústmánuði. Sömuleiðis starfaði Alþingi mjög vel í vor. Þá voru afgreidd mjög mörg mál. Síðan var mælt fyrir allmörgum stórum málum í upphafi þingsins núna í ágústmánuði. Þessi mál eru komin inn í nefndir. Við þekkjum það af fenginni reynslu að það er oft svo, t.d. á haustin þegar verið er að koma þinginu af stað að þá skapast dálítil ládeyða í umræðunni nokkru eftir að búið er að koma af stað hinum stærri málum, síðan hefst mikil vinna þingmanna.

Þetta vildi forseti segja til útskýringar á þeirri stöðu sem er uppi í þinginu í dag.