145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

dagskrá fundarins og fundarsókn.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég get eiginlega ekki orða bundist þegar ég kem í salinn og sé hann þunnskipaðan og sé dagskrá dagsins. Ég sé að á dagskránni er ekki gert ráð fyrir atkvæðagreiðslunum sem áttu að vera í gær og var frestað vegna fjarvista þingmanna. Ég sé að dagskrá dagsins í dag verður líklega lokið innan 40 mínútna. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hversu lengi eigi að halda okkur hér í þinghaldi um ekki neitt. Ég hef áhyggjur af því fyrir virðingu þingsins að hér séu þingmenn boðaðir til hálftíma þingfunda sem flestir þeirra sjá greinilega ekki ástæðu til að sinna eða mæta á, eftir að okkur hafði verið tilkynnt að hér væri mjög nauðsynlegt að hafa langt þinghald til að ljúka alls kyns stórum málum.

Herra forseti. Þetta getur ekki haldið áfram svona. Ég hafði ekki ætlað mér að fara upp í fundarstjórn, en þegar maður kemur inn í salinn og sér dagskrána fæ ég ekki orða bundist. Ég vil hvetja hæstv. forseta til þess að grípa til sinna ráða, fullvissa okkur hv. þingmenn um að starfsáætlun verði haldin og þinginu slitið á tilsettum tíma, því að það er engin ástæða til að halda þessu þinghaldi áfram, herra forseti.