145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

dagskrá fundarins og fundarsókn.

[10:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það hefur ekki verið haldinn neinn samráðsfundur þingflokksformanna alla þessa viku. Mér finnst það áhyggjuefni og ég óska eftir því að forseti hitti okkur núna eftir þennan þingfund til þess að við förum yfir hvernig næsta vika á að vera. Mér finnst furðulegt að hér séum við að koma á fund sem eingöngu snýr að óundirbúnum fyrirspurnum sem hefði hæglega verið hægt að setja á dagskrá í gær. Eins og hefur komið fram eru mjög fáir þingmenn í húsi frá meiri hlutanum. Það var haft í hótunum um það að ef minni hlutinn mundi ekki haga sér þá mundi þingið vera hér út í hið óendanlega. Það liggur enn ekkert fyrir um hvernig þinghaldið á að vera. Maður hefur heyrt af því, forseti, að starfsáætlun muni ekki standa. Hvað þýðir það? Ég krefst þess að forseti fundi með þingflokksformönnum allra flokka nú þegar.