145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

einkarekstur í almannaþjónustu.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Ég held að það sé ágætt að við tökum svolítið opinskáa umræðu um þessi mál. Ég hygg að sá sem hér stendur og flokkur hans og hv. þingmaður, formaður vinstri grænna, séu meira og minna sammála um margt af því sem við viljum tryggja að sé í höndum hins opinbera.

Hins vegar er hægt að fara yfir það að á liðnum árum og áratugum hefur margt verið fært í svokallaðan einkarekstur, þar á meðal t.d. heilsugæsla sem hefur staðið sig býsna vel. Sérfræðiþjónusta lækna er meira og minna einkarekin. Það hefur kannski verið eitt af þeim vandamálum sem við hefur verið að glíma að heilsugæslan er ekki fyrsti viðkomustaður allra alls staðar á Íslandi. Ein af ástæðum þess hefur meðal annars verið sú að heimilislæknar, sem hafa kosið að fara í það sérnám, hafa kannski frekar viljað fara í annað sérnám þar sem þeir standa fyrir eigin rekstri. Fyrirmyndirnar að slíku eru bæði frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi þar sem heimilislæknir geta verið með einkarekstur með sambærilegum hætti og aðrir sérfræðilæknar. Ég held því að við séum ekki að færa reksturinn úr höndum hins opinbera þó að við mundum færa okkur inn á slíkt svið. Við erum að sækja okkur fyrirmyndir til annarra Norðurlanda eins og við höfum oft gert áður.

Varðandi samgöngukerfið vil ég minna á að Hvalfjarðargöngin voru í einkarekstri. Ég hef ekki heyrt marga hér inni tala um að það hafi verið rangt og að ríkið hefði átt að fara í þá framkvæmd. Ég efast líka um, komi til þess að tvöfalda Hvalfjarðargöngin, að menn muni leggja til að þeir tugir milljarða sem í það færu yrðu teknir út úr almenna vegakerfinu og settir í þá framkvæmd. Þetta er hins vegar eitt af því sem er órætt og þess vegna held ég að það væri ágætt að taka þá umræðu hér. (Forseti hringir.)

Ég man eftir því að á síðasta kjörtímabili, þegar hv. þingmaður var í ríkisstjórn, var mikið rætt um að koma framkvæmdum (Forseti hringir.) í samgöngumálum fyrir í hendur einkaaðila og að byggja sjúkrahús og sitthvað fleira.