145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[10:46]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mér er virðing þingsins mjög hugleikin þessa dagana og störf okkar hérna. Þess vegna langar mig að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra.

Á þessu kjörtímabili hefur okkur gengið alveg sérstaklega illa að halda starfsáætlanir. Ég held að starfsáætlanir hafi næstum því aldrei staðist á kjörtímabilinu og þeim hefur verið breytt, nú síðast í vor þar sem þetta sumarþing í ágúst var sett á, þ.e. þing í þrjár vikur. Það var samþykkt í forsætisnefnd og talað um að þetta væri mikilvægt vegna þess að það væru stór og mikilvæg mál sem þyrfti að klára áður en hægt væri að ganga til kosninga, sem var tilkynnt að þyrfti að flýta fram á haustið. Við upplifum óstöðugleika og óvissu í íslenskum stjórnmálum. Það hefur verið óljóst þangað til í raun og veru allra seinustu daga hvenær yrði gengið til kosninga. Það hafa verið ýmsar yfirlýsingar um að það yrði kannski ekki gert í haust o.s.frv. Við erum alla vega samankomin á Alþingi í þrjár vikur samkvæmt starfsáætlun forseta og öllum að óvörum erum við hálfverklaus hérna, fulltrúar almennings á Alþingi Íslendinga, sérstaklega samankomnir að sumri. Mig langaði að fá sjónarmið hæstv. forsætisráðherra á þá stöðu, hvaða hugmyndir hann hefur um stór mál sem eigi að klára fyrir þinglokin og hvort við séum að klára úr pípunum akkúrat núna eða hvort við horfum fram á stór óvænt tíðindi eða ný mál næstu daga.