145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

hækkun ellilífeyris.

[10:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra um að ríkisstjórnin ætli að klára fyrirliggjandi tillögur um hækkun á ellilífeyri og um að draga úr skerðingum og einfalda kerfið. En ég hlýt að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er samkomulag um þetta í ríkisstjórninni? Er það forgangsmál stjórnarflokkanna sameiginlega að klára þetta á þinginu? Hvernig stóð þá á þessari afgreiðslu á fimm ára ríkisfjármálaáætlun um daginn? Þar greiddi hæstv. forsætisráðherra atkvæði með áætlun sem gerir ekki ráð fyrir þessari hækkun á ellilífeyri en hæstv. félagsmálaráðherra sá sig knúinn til að sitja hjá við afgreiðsluna einmitt vegna þessa, ef ég hef skilið þetta rétt.

Hvernig rímar þessi yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra, um að ekki eigi að ljúka kjörtímabilinu öðruvísi en að hækka ellilífeyri, við yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra um að ráðherra í ríkisstjórn sem ekki styðji stjórnarfrumvörp geti ekki vænst þess að hans eigin mál fái framgang? Er það ekki alveg skýrt af hálfu fjármálaráðherra að hér er átt við félagsmálaráðherra og nefnt mál?

Ef ætlunin er að afgreiða svo flókið og viðamikið mál sem breyting á almannatryggingalögum og hækkun ellilífeyris er, hvernig hefur verkstjóri ríkisstjórnarinnar hugsað sér að sú vinna fari fram, jafnvel þó að við værum hér út allan septembermánuð? Eftir mínum eftirgrennslunum hér í vikunni þá er málið ekki einu sinni komið inn í ríkisstjórn. Hvenær ætlar verkstjórinn að taka hækkun ellilífeyris inn í ríkisstjórn? Er búið að kostnaðarmeta málið? Hvenær verður það afgreitt frá stjórnarflokkunum að hækka ellilífeyri fyrir kosningar? Hvenær má þingið vænta þess að málið komi á dagskrá? Hvenær getum við stutt þau ágætu áform, þingmenn stjórnarandstöðunnar sem erum mörg, ef ekki öll, því fylgjandi að þessar tillögur nái fram að ganga?