145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

afgreiðsla mála á sumarþingi.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur áhyggjur hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar af ríkisstjórninni og samstarfinu. Ég get hins vegar sagt að það gengur ljómandi vel og hefur gengið ljómandi vel. Við hyggjumst halda áfram að ljúka þeim verkefnum sem við viljum að þingið takist á við og klára áður en við göngum til kosninga, af því að þau mál skipta land og þjóð miklu.

Varðandi síðan það sem hv. þingmaður hefur rætt um að það sé hér eitthvert stjórnleysi vil ég minna á að í sumar eða vor, í apríl, maí og júní, afgreiddum við fjöldann allan af málum, sérstaklega í maí, um 35–40 mál af þeim 80 sem við lögðum fyrir stjórnarandstöðuna að við vildum klára. Það er einhver bunki af þeim enn þá í nefndum, einhver hafa komið hérna fram og verið kláruð, önnur verða kláruð á næstu vikum. Síðan eru þau nýju mál sem við höfum verið að ræða um. Einhver þeirra verða lögð hér fram og ég tek undir með hv. þingmanni og þingmönnum að því fyrr sem þau koma til kasta þingsins, því betra, og því líklegra að þeim geti lokið með sóma.