145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að boða fund með þingflokksformönnum eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir óskaði eftir áðan. En ég vil hins vegar segja að starfsáætlun Alþingis var samþykkt í vor með breytingum og það var að því gefnu að hér yrði gott starfsumhverfi í þinginu, hér yrði vel unnið og stjórnarandstaðan og allir einhentu sér í að vinna vel saman. Það hafa engar forsendur breyst, forseti. Hér hefur verið unnið vel en á sama tíma gerist það núna í óundirbúnum fyrirspurnatíma að hæstv. forsætisráðherra, sem er forustumaður framkvæmdarvaldsins, lætur eins og starfsáætlun Alþingis sé einskis virði, sé ekki pappírsins virði. Hann kemur hingað inn og tilkynnir Alþingi það og forseta þar á meðal að til standi að funda hér einhverjum vikum saman eftir að starfsáætlun Alþingis er lokið. Þetta er ótækt. Þetta er hegðun framkvæmdarvaldsins sem er á kostnað virðingar Alþingis. Ég legg áherslu á að við gætum mjög vel að þessu þegar við hittumst hér á eftir að þetta er ótækt. Alþingi þarf að gæta að sinni virðingu og gera framkvæmdarvaldinu mjög ljóst (Forseti hringir.) að starfsáætlun Alþingis er pappír sem skiptir máli.