145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Úr því að hæstv. fjármálaráðherra er farinn að blanda sér í umræðuna, sem ég vil fagna sérstaklega, vil ég biðja hann um að staðfesta afstöðu sína til starfsáætlunar. Fram hefur komið að forsætisráðherra telur starfsáætlun einskis virði og fram hefur komið að fjármálaráðherra er sömu skoðunar. Hann hefur þó ekki kveðið eins fast að orði, að hann telji starfsáætlun hæstv. forseta, Einars K. Guðfinnssonar, einskis virði og ekki standast, heldur standi eitthvað annað til. Þá ætla ég að biðja hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, að upplýsa þingið um hvaða afstöðu hann hefur til þess. En staðan er óþolandi. Staðan er gersamlega óþolandi fyrir Alþingi. Að þetta þyki bara eðlileg og verjandi framkoma framkvæmdarvaldsins, beggja forustumanna stjórnarflokkanna hér við Alþingi, að koma hingað og taka í raun og veru starfsáætlun Alþingis og gera hana að engu.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, að fyrir liggur að fjöldinn allur af þingmönnum stjórnarflokkanna er byrjaður í kosningabaráttu. Þeir eru í kosningabaráttu úti um allt land. Þeir eru á fundum með fólki úti um allt land. (Forseti hringir.) Á meðan erum við hér að halda uppi þingstörfum, halda uppi nefndastörfum o.s.frv., með það fólk meira og minna í burtu. (Forseti hringir.) Svo er það þannig að verið er að boða (Forseti hringir.) nefndarfund á morgun utan starfsáætlunar. Það gengur heldur ekki, forseti, og það þurfum við að ræða.