145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í ljósi orða forseta um þingmannafjölda á þinginu í gær og ástæðu þess að ekki væri hægt að halda atkvæðagreiðslu vil ég benda á að allir þrír þingmenn Pírata voru í húsinu þegar við fengum SMS-skilaboð frá forseta um að það yrðu ekki atkvæðagreiðslur.

Það sem mér finnst alvarlegt er að það er alveg ljóst að ekki eru nema 20 mál í nefndum. Það er þó rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að þetta eru þung og flókin mál. Þess vegna furða ég mig á því að í stað þess að vera með örstutta þingfundi í dag og í gær hafi ekki verið ákveðið hafa sérstaka nefndadaga þannig að hægt væri að vinna þau mál áfram.

Svo er það alveg furðulegt að nú erum við í þeirri stöðu í nefndunum að við þurfum að senda mál út til umsagna og það þarf að gera með fyrirvara um að ekki sé nægilegur tími fyrir þá sem eiga að veita umsögn til þess að gera það, af því að starfsáætlun þingsins er eins og staðan er í dag þannig að þingið mun ljúka sínum störfum 2. september. (Forseti hringir.) Það er staðan í dag, forseti.