145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir hina góðu ræðu hæstv. forseta. Ég tel að það sé algjörlega með ólíkindum að formenn nefnda skuli ekki hafa notað það rými sem hæstv. forseti skapaði þeim síðar í dag til funda. Ég kem hér til þess að leita ásjár hæstv. forseta. Ég heyri á skotspónum að það sé búið að boða til fundar í utanríkismálanefnd á morgun. Það hafa engin boð komið um það á mína tölvu. Ég veit ekki klukkan hvað það er. Formaðurinn getur ekki mætt. En á þeim tíma sem ég heyri að fundurinn eigi að vera þá á ég löngu fyrir fram ákveðið stefnumót við framtíð mína, þ.e. hjá tannlækni mínum. Mér finnst það algjörlega út í hött að verið sé að kasta inn svona fundum á degi þar sem ekki átti að vera þing og þegar ljóst er að það er nógur tími í dag.

Að öðru leyti sýnist mér á öllu, m.a. því hvernig meiri hlutinn hefur frestað umsagnarskilum um þrjú stór mál forsætisráðherra að hann sé að þvæla málum fram yfir áætluð þinglok til þess að geta tafið kosningabaráttuna, til þess að koma í veg fyrir það að kosningabaráttan geti hafist. Þeir ætla að halda þinginu hérna eins lengi og eins nálægt kosningum og þeir geta. (Gripið fram í.)