145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að vekja athygli á þessu. Við í allsherjar- og menntamálanefnd ætlum einmitt að nýta tækifærið og funda á eftir. Ég vil líka vekja athygli á ákveðnum vanda sem er fyrir hendi í störfum nefnda. Það þurfa náttúrlega að vera umsagnarfrestir í viðamiklum málum. Við erum t.d. að fjalla um breytingar á námslánakerfinu og erum að vinna það mál núna án þess að umsagnarfrestur sé liðinn. Auðvitað getum við tekið suma gesti en hefðin er sú að láta umsagnarfresti líða og umsagnir berast áður en maður fer í mikla efnislega vinnu við mál. Það er því ákveðið millibilsástand. Ég vil ræða þetta undir liðnum um fundarstjórn forseta. Þetta er liðurinn sem á að nota til að ræða þessi mál. Ég hef áhuga á þessu. Mér finnst það ósiður, og mér finnst merkilegt að það skuli vera látið ótalið af stjórn þingsins, að ríkisstjórnarflokkarnir hafi frumkvæði að því í raun og veru að biðja um þennan þingstubb hérna, eru með miklar yfirlýsingar í samfélaginu um að mörg stór mál þurfi afgreiðslu og segja stjórnarandstöðunni að flækjast ekki fyrir og þar fram eftir götunum, en koma ekki (Forseti hringir.) með öll málin — öll málin — öll málin sem á að samþykkja (Forseti hringir.) á þeim litla stubbi strax í upphafi hans. Það er algjör ósiður. Það er fáránlegt (Forseti hringir.) að vera að tína þetta inn eftir hendinni, algjörlega á skjön við starfsáætlun. Þann ósið þarf að uppræta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (EKG): Þetta er bergmál af mörgum ræðum forseta í gegnum tíðina.)