145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Fyrir okkur þingmenn í þessum sal er orðið ansi þreytandi að vera einhvers konar statistar í leikritinu um innanbúðarvanda stjórnarflokkanna. Í því samstarfi stendur ekki steinn yfir steini og á meðan svo gengur fram erum við hér í hálftómum sal með mjög rýra dagskrá ef frá er talin stórkostleg sérstök umræða formanns Samfylkingarinnar um uppboð á aflaheimildum á eftir.

Ég kem hér upp til að fara þess á leit við hæstv. forseta Alþingis að hann kalli til sín forustufólk flokkanna á Alþingi og fari yfir það hvernig hægt sé að ljúka þessu þingi. Hin stóru mál sem boðuð hafa verið eru ekki einu sinni komin inn í ríkisstjórn. Vegna okkar þingmanna og vegna virðingar þessarar stofnunar bið ég hæstv. forseta að kalla forustufólk flokkanna á sinn fund, reyna að fá einhvern botn í málin og taka (Forseti hringir.) stjórnina.