145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:38]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að lýsa stuðningi við fundarstjórn og starfsáætlun forseta Alþingis. Sem fulltrúi stjórnarandstöðuflokks tek ég til mín orð formanns Framsóknarflokksins um að við eigum ekki að vera að þvælast fyrir. Ég vil alls ekki þvælast fyrir þingstörfum og það er ljóst að ég er ekki að þvælast fyrir þingmönnum stjórnarflokkanna því að þeir sjást ekki í þessum sal. (Gripið fram í: Hvað ertu að segja?) Með einni ágætri undantekningu, ég segi það ekki. (Gripið fram í: Halló.) Og jafnvel tveimur. (Gripið fram í.) Þremur. Hér eru þrír stjórnarþingmenn. Já, það er ágætt. (Gripið fram í: Þá er upp talið.) Þá er upp talið.

En mig langar einnig til að taka upp umræðu um nefndafundi. Það er rætt um að halda fund í utanríkismálanefnd á morgun en hann hefur ekki enn verið boðaður. Mér þykja mjög slæmar fréttir fyrir virðingu og skilvirkni Alþingis tilhugsunin að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé hér að störfum með tannpínu. [Hlátur í þingsal.] Mér þykir það ekki samboðið störfum eða nefndum Alþingis að þvílík óvissa sé um það hvenær eða hvort (Forseti hringir.) nefndafundir séu haldnir. Því ítreka ég stuðning við fundarstjórn hæstv. forseta.