145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[12:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þessi umræða snýst um grundvallarspurningu: Hvernig á að úthluta takmörkuðum gæðum og auðlindum eins og fiskinum í hafinu? Samfylkingin er þeirrar skoðunar og ég er þeirrar skoðunar að besta leiðin til þess sé að fara með þær auðlindir og nýtingarrétt af þeim í útboð. Það var skýrt mjög vel áðan í frábærri ræðu formanns Samfylkingarinnar. Hún tryggir það að í fyrsta lagi er jafnræði varðandi það að fá rétt til nýtingar. Í öðru lagi tryggir hún að hinir raunverulegu eigendur, þjóðin, fær réttan arð í ríkissjóð og til samneyslunnar. En það sem skiptir ekki síst máli er að markaðurinn tryggir það líka að greinin þarf ekki að greiða meira en hún getur. Þannig funkerar markaðurinn.

Kvótakerfið hefur algjörlega náð þeim upphaflega tilgangi sínum að koma í veg fyrir ofveiði stofnanna, en úthlutun aflaheimilda hefur hins vegar leitt til þess að hér hefur staðið 30 ára stríð í landinu. Almenningi á Íslandi finnst eins og auðlindinni hafi verið stolið frá sér og vill að henni verði skilað til baka. Við sjáum að sægreifar stóru útgerðanna eru orðnir ólígarkar Íslands. Þeir hafa á undanförnum árum heimt gríðarlegar fjárhæðir í arð út úr þessum fyrirtækjum. Frá því að bankahruninu slotaði hefur hagnaður þessara fyrirtækja samtals verið á þriðja hundrað milljarð króna, næstum því 50 milljarðar hafa verið teknir út úr þeim í arð. Þetta eru ólígarkar íslenska sjávarútvegsins að nota það nánast til að kaupa upp Ísland. Þetta kyndir undir óánægju fólks og fólk upplifir þetta sem mesta ranglæti Íslandssögunnar.

Ég er þeirrar skoðunar að við verðum núna að komast til botns í þessu máli, við verðum að sætta þessar deilur. Með því að fara útboðsleiðina sem formaður Samfylkingarinnar hefur reifað þá náum við öllum þeim meginmarkmiðum sem við (Forseti hringir.) þurfum að ná. En það sem skiptir mestu máli er að við getum náð sátt (Forseti hringir.) um málið.