145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[12:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er einmitt svona ræða eins og við vorum að hlusta á sem færir okkur ekki fram veginn, þar sem öllu er lofað með hástemmdum yfirlýsingum um leiðir sem eru algjörlega óraunhæfar að mörgu leyti. Meðan við höldum okkur við slíkan málflutning þá náum við ekki áfram í þessu máli. Eða hvað gerði þessi hv. þingmaður sem hélt síðustu ræðu og hv. formaður Samfylkingarinnar, hvað gerðu þau á fjögurra ára stjórnartímabili sínu, eða sex ára tímabili stjórnarþátttöku, áður en þetta kjörtímabil rann út? (Gripið fram í.) Af hverju komust þau ekki áfram (Gripið fram í.) með þetta mál þá? Vegna þess að umræðan var höfð á svona plani eins og við verðum vitni að í dag, því miður. Hér er allt of mikilvægt mál undir til þess að við getum leyft okkur þetta ef við ætlum að sýna einhverja ábyrgð. Alþingi hefur auðvitað algjörlega brugðist hlutverki sínu þegar kemur að því að móta framtíðarstefnu í íslenskum sjávarútvegi og að reyna að rétta fram sáttarhönd og ná sáttum við þjóðina og hagsmunaaðila í þessu mikilvæga máli.

Vandamálin eru augljós. Þau blasa við okkur. Það þarf að ná sátt um það hversu mikinn arð þjóðin fær af þessari auðlind sinni. Það þarf að auka aðgengi minni og meðalstórra fyrirtækja að aflaheimildum. Það þarf að auka framboð á fiskmörkuðum þannig að fiskvinnslufyrirtæki sem hafa fundið sér hillur á þessum markaði með mjög góðum árangri víðast hvar geti fengið hráefni til sinnar vinnslu. Það þarf að skapa byggðafestu eins og hægt er í kringum þetta. Þetta hljómar kannski ekki svo flókið ef við horfum á þetta svona.

Ég hef lagt fram hugmyndir sem mæta þessum sjónarmiðum til umræðu. Ég hef sett þær fram í blaðagreinum og víðar og ég tel þær mæta þessum sjónarmiðum. Ég bið um það, virðulegi forseti, og skora á alþingismenn að hætta nú öllum þessum hástemmdu yfirlýsingum. Hér er vitnað til Færeyinga sem hafa ekki náð nálægt því þeim árangri í sjávarútvegi sem Íslendingar hafa náð, langt frá því. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að bera okkur saman við þetta. Við eigum að horfast (Forseti hringir.) í augu við þær staðreyndir og reyna að móta (Forseti hringir.) leiðir, málefnalega, til þess að mæta þeim og ná sátt um þessi mál, ekki bregðast hlutverki okkar ítrekað.