145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[12:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Árið 2013 þegar núverandi ríkisstjórn hafði nýtekið við blasti við að setja þyrfti lög um veiðigjöld til þess að þau yrðu innheimt. Það var gert. Það var gert á þann hátt að veiðigjald á stærri útgerðir var hækkað, á minni útgerðir lækkað. Sá sem hér stendur bar þá von í brjósti þá, eftir að tíu stærstu fyrirtæki í sjávarútvegi borguðu þá 75% allra veiðigjalda, að þetta kynni að verða til þess að tefja fyrir samþjöppun í þessari grein. Því miður hefur það ekki orðið vegna þess að meðalstór fyrirtæki hafa verið seld og kvóti jafnvel með, bæði milli sveitarfélaga og innan sveitarfélaga. Hvers vegna? Vegna þess að stjórnendur þeirra fyrirtækja hafa ekki talið rekstur sinn rísa undir þeim veiðigjöldum sem samt var búið að lækka. Þetta hefur orðið til mikillar samþjöppunar í greininni, því miður.

Hvort uppboðsleið er rétta leiðin er ég ekki sannfærður um. Uppboð Færeyinga um daginn þar sem fjögur, fimm, sex fyrirtæki buðu í þær heimildir sem voru til skiptanna en voru síðan seldar úr landi, ég er ekki viss um að það sé það sem við viljum hér.

Það sem við þurfum hins vegar að gera er að ná breiðri samstöðu hér innan lands um hvernig hægt er að tryggja það að þau 600 fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi á Íslandi og standa undir byggðum víða um land haldi áfram að gera það. Við vitum það núna líka að samþjöppun í vinnslu er orðin þannig að 65% alls afla á Íslandi eru unnin á svæði sem afmarkast af Þorlákshöfn í austri og Snæfellsnesi í vestri. Þetta er hlutur sem við verðum að aðgæta. Þetta er hagræðing sem hefur valdið því að menn hafa farið þessa leið. En við þurfum hins vegar að setjast niður og reyna að finna leiðir, því að það er engin ein leið til, til að tryggja bæði samstöðu (Forseti hringir.) meðal þjóðarinnar og tryggja það að fyrirtæki geti verið í eðlilegum rekstri úti um (Forseti hringir.) allt land og jafnframt að tryggja að þjóðin fái eðlilegan arð af þessari auðlind sinni.