145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[12:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í kvótakerfinu felst ákveðið kúgunarvald. Það sem ég hef tekið eftir, þegar ég hef ferðast um landið og talað við sjómenn, er að menn upplifa víða að þeir geti ekki talað opinskátt um sínar skoðanir hreinlega af ótta við að missa vinnuna og verða fyrir skakkaföllum að öðru leyti. Þeir rekja þetta beinustu leið til kvótastefnunnar og þess umhverfis sem hún hefur skapað.

Það er rétt sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fór yfir áðan að það eru þrjú markmið sem hljóta að vera aðalhluti stefnu okkar í sjávarútvegi. Það er í fyrsta lagi að arður af nýtingu auðlindarinnar fari til þjóðarinnar, í öðru lagi sjálfbær nýting auðlindarinnar og í þriðja lagi byggðasjónarmið. Ný hygg ég að sjálfbær nýting auðlindarinnar náist með aflamarki, hvort sem það er á uppboði eða með núgildandi fyrirkomulagi. Ég tel því markmiði hafa verið náð og ég sé ekki hvernig uppboðsleiðin mundi á nokkurn hátt stofna því markmiði í hættu. Ég álykta sem svo að við höfum náð því markmiði og munum halda því áfram jafnvel með uppboðsleiðinni.

Hvað varðar tekjur til þjóðarinnar af nýtingu auðlindarinnar þykir mér mjög augljóst, af þeirri reynslu sem nú er að byggjast upp, og reyndar bara augljóst eðli málsins samkvæmt, að uppboðsleiðin skilar meiri arði til ríkisins sem þá er hægt að nýta með ýmsum hætti, til dæmis til þess að þjóna markmiði númer þrjú, sem eru auðvitað byggðasjónarmiðin.

Það er ýmislegt sem hægt er að gera til að forðast ýmis vandamál. Það er hægt að setja takmarkanir á hlutdeild í aflamarki eins og er reyndar nú þegar gert. Það er hægt að eyrnamerkja hlutina ákveðnum byggðarlögum, þá væntanlega með betri reglum en nú gilda o.s.frv. Það er ýmislegt hægt að gera og þarf að gera til að ná þeim markmiðum. En ég sé ekki að uppboðsleiðin muni á nokkurn hátt storka því heldur þvert á móti búa til frekari tækifæri og einfaldlega afla meira fjármagns handa ríkinu til að koma til móts við slík sjónarmið. Síðast en ekki síst vil ég nefna frjálsar handfæraveiðar sem ég vil meina að mundu gera útvegsmönnum af minni tegundinni, sem eru ekki umsvifamiklir, mikið frelsi frá því ægivaldi sem einkennir sjávarútveginn nú til dags.