145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[12:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir ræðuna og einnig hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Mér heyrðist á hæstv. ráðherra að hann gæfi ekki mikið fyrir útboð Færeyinga. Aðrir hér hafa talað um að það þurfi betri reynslu á það. Ég vil bjóða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að koma á fund 8. september sem Samfylkingin heldur, hann er opinn, og þangað koma þingmenn frá færeyska þinginu og fleiri sérfræðingar til að fara yfir hvernig hefur gengið hjá þeim og áætlanir þeirra fram undan.

Síðan er talað hér eins og ef útboð verði á aflaheimildum sé um að ræða allt eða ekkert. Það er auðvitað ekki þannig. Það er ekki þannig yfir höfuð í útboðum því að það er hægt að ná öllum pólitískum markmiðum, líka markmiðum sem taka tillit til byggðasjónarmiði, með reglum um útboð. En kvótaútboð er þegar stundað á Íslandi. Þau eru alfarið í höndum einkaaðila. Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu verði í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir þurfa að greiða stærri útgerðum 200 krónur fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins 13 krónur. Eina breytingin með útboði á aflaheimildum er því sú að þá mun þjóðin sjálf, eigandi auðlindarinnar, stunda frumútboð á heimildum og njóta arðsins. Það er réttlátt.

Einn af kostum tilboðsleiðar er að leigugjald sem greitt er fyrir aflahlutdeildir sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Þannig byggist upphæð leigugjalds ekki á matskenndum ákvörðunum og eigendur auðlindarinnar, fólkið í landinu, geta treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram aðra.