145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

þjóðgarður á miðhálendinu.

[15:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í sumar að loknu þinghaldi bárust þær fréttir að hæstv. ráðherra hefði ákveðið að setja á fót nefnd sem yrði falið að kanna forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs innan svokallaðrar miðhálendislínu, þ.e. falið að skoða forsendur þess að stofna þjóðgarð á miðhálendinu.

Í nefndinni, samkvæmt fréttatilkynningu frá ráðuneytinu, eiga að sitja fulltrúar ýmissa ráðuneyta, Samtaka ferðaþjónustunnar, Bændasamtakanna, Samorku, umhverfisverndarsamtaka, samtaka útivistarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það sem vakti athygli mína í þessu máli er að tillaga til þingsályktunar um þjóðgarð á miðhálendinu hefur legið fyrir á þessu þingi og raunar tvö síðastliðin þing. Ég velti fyrir mér hvað hæstv. ráðherra gangi til eða hver ætlan hennar sé í þessu máli í ljósi þess að tillaga um þetta hefur verið hér inni og fengið afar jákvæðar umsagnir, hví hæstv. ráðherra hafi ekki hvatt til þess að sú tillaga yrði samþykkt og hví hæstv. ráðherra hafi ekki efnt til samráðs við Alþingi og fetað í fótspor þeirra ráðherra sem sátu þegar unnið var að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar var skipuð sérstök nefnd stjórnmálaflokka og fulltrúa ráðuneytisins til að tryggja þverpólitíska sátt og samstöðu og skilning á því verkefni.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra ætli sér að sniðganga þingið með þessum hætti eða hvort um sé að ræða hugsunarleysi hjá hæstv. ráðherra því að í svona stóru máli og þegar litið er til fordæmanna er eðlilegt að hafa samráð við þingið með einhverjum hætti. Þó að afar jákvætt sé að ráðherra sé að skoða þessi mál í ráðuneyti sínu hlýtur hæstv. ráðherra að vera kunnugt um allar þær umræður sem hafa farið fram á Alþingi um málið. Það hlýtur að vera hæstv. ráðherra kappsmál að stofna til slíks þverpólitísks samráðs, ekki síst í ljósi fordæmanna, þannig að ég spyr hæstv. ráðherra hvort hér sé ekki örugglega um hugsunarleysi að ræða og hvort ekki standi til að endurskoða þetta fyrirkomulag (Forseti hringir.) og hvort hæstv. ráðherra styðji ekki þá tillögu sem liggur fyrir þinginu.