145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

bónusar til starfsmanna Kaupþings.

[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það var þannig til skamms tíma að í tilviki fjármálafyrirtækja var það Fjármálaeftirlitsins að setja reglur um bónusgreiðslur og það kom sá tímapunktur að menn töldu vafasamt að sá nauðsynlegi lagagrundvöllur sem þyrfti fyrir þeirri reglusetningu væri til staðar. Þess vegna lagði ég fyrir þingið frumvarp sem tók sérstaklega á bónusgreiðslum í tilviki fjármálafyrirtækja.

Nú er það fyrirtæki sem hér er rætt um ekki starfandi á grundvelli starfsleyfis sem fjármálafyrirtæki. Að því leytinu til starfar fyrirtækið eins og hvert annað félag í landinu. Ég er opinn fyrir umræðu um það hvernig við í þessu samfélagi mundum ná einhverri niðurstöðu um það með hvaða hætti almennt ætti að búa um bónusgreiðslur eins og þær sem eiga við í þessu tilviki, sem miða við einhvern árangur í rekstri eða annað þess háttar. En ég held að það sé afskaplega erfitt að stinga sér inn í þessa umræðu á grundvelli einstaks fyrirtækis áður en endanleg niðurstaða hefur einu sinni fengist, en lýsi mig um leið reiðubúinn til þess að taka þátt í umræðu um það hvort við getum með einhverjum hætti sett skýrari umgjörð um þessi mál, enda hef ég í umræðu um takmörkun á bónusgreiðslum til starfsmanna í fjármálafyrirtækjum vakið athygli á því, vegna þeirrar gagnrýni sem þá reis, að þarna væri jú verið að færa í lög í fyrsta skipti slíkar hindranir en enginn benti á þörfina fyrir að gera það fyrir restina af samfélaginu, þ.e. alla aðra atvinnustarfsemi í landinu. Mér fannst það skjóta skökku við að sitja undir gagnrýni fyrir að koma með það frumvarp á sínum tíma. (Forseti hringir.) Meira hef ég í sjálfu sér ekki um þetta að segja á þessu stigi.