145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

bónusar til starfsmanna Kaupþings.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við sitjum á Alþingi, á löggjafarsamkomunni. (Gripið fram í: Rétt.) Ég er í sömu stöðu og hv. þingmaður til að leggja fram frumvarp. Hann stingur upp á því að ég boði menn á minn fund og biðji þá um að ganga ekki svona fram. Ég hélt reyndar að ég hefði komið sjónarmiðum mínum ágætlega á framfæri í síðustu viku. Ég hélt að það hefði ekki mátt misskilja orð mín um þessi efni og veit ekki hverju það ætti við að bæta að fá menn hingað eða upp á skrifstofu mína í ráðuneytinu til að lesa sama pistilinn.

Ég tók ekki eftir því að hv. þingmaður hefði neina tillögu í málinu aðra en þá að boða til fundar. Ég lýsti yfir vilja til að taka þátt í samtali um það hvernig menn mundu búa um þessi mál. Eftir því sem ég best veit hefur engin ákvörðun verið tekin. Því er ekki einu sinni haldið fram að ég fari með einhverjar valdheimildir til að grípa inn í svona mál. Er það nokkuð? (Gripið fram í.) Það væri þá Alþingis að stíga inn í málið og okkar sameiginlega hér að ræða um það með hvaða hætti það ætti að gerast.

Ég vek athygli á því, vegna þess að menn velta fyrir sér skattlagningu, að það er þannig í dag, það hefur ekki ávallt verið þannig, að greiðslur af þessum toga eru (Forseti hringir.) skattlagðar sem launagreiðslur.