145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

mengandi örplast í hafi.

[15:16]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það var áhugaverð frétt í Morgunblaðinu í morgun sem ég las í fluginu á leið suður sem fjallar um svokallað örplast sem fer út með skólpi, að við rekum lestina þegar kemur að því að sía þetta örplast. Það hefur verið gerð rannsókn sem sýnir fram á að engar hömlur séu hér á Íslandi, að skolphreinsistöðvar okkar taki ekki á þessum örlitlu plastögnum sem eru mjög skaðlegar fyrir umhverfið. Sem dæmi þá segir í fréttinni að stærstu stöðvarnar sem reknar eru í Svíþjóð og í Finnlandi geti fangað allt að 99% af þessum ögnum. Stærsta stöðin í Svíþjóð sleppi um 120 þús. ögnum, stærsta í Finnlandi tæplega 500 þús. ögnum, en Klettagarðsstöðin sleppir yfir 6 milljónum agna á klukkustund.

Nú geri ég ekki þá kröfu að hæstv. ráðherra sé búinn að lesa þessa frétt, en við þekkjum samt þetta vandamál sem er örplast í hafi, það er m.a. í snyrtivörum líka. Í Evrópusambandinu er verið að ræða um að banna míkróplast eða örplast í snyrtivörum. Bandaríkjamenn hafa tekið skref í þá átt og hafa sett löggjöf, og Bretar, breska þingið hefur tekið þetta mál til umfjöllunar. Við höfum kannski ekki rætt þetta mikið hér og ekki lagt fram nein þingmál, en þetta er mál sem alþjóðasamfélagið þarf að taka á vegna þess að agnir sem fara í hafið ferðast auðvitað út um allt.

Mér finnst þetta vera mjög alvarlegt. Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir til þessarar umræðu. Það var haldin mjög góð ráðstefna hérna 2013 um örplast og plast í hafi. Menn hafa kannski verið að einblína á plastpokana og flöskurnar og annað, en örplastið er ekki síður hættulegt.

Nú spyr ég hvort ráðherra sé ekki sammála mér í því að ef þessar skolphreinsistöðvar okkar eru ekki nógu öflugar þá þurfi að gera eitthvað í því og hvort við komum með einhverjum hætti, að því, hvort segja þurfi lög um það.