145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

mengandi örplast í hafi.

[15:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum þessa ágætu fyrirspurn og rétt eins og hún þá las ég þessa grein með athygli í morgun, snemma morguns, svo fór ég í niður í ráðuneyti og ræddi þetta þar, hvað væri að gerast í þessu og er þess vegna akkúrat það vel undirbúin að ég er hér með mjög litríka mynd sem mér var gefin, get sýnt þingmanninum hana, sem sýnir að það er slit frá hjólbörðum sem berst langsamlega mest út í hafið, sem kemur okkur kannski nokkuð að óvörum. Það yfirgnæfir allt annað sem berst út í hafið. Það er rétt að hafstraumar flytja til þessi léttu plastefni og við erum stöðugt að verða betur og betur meðvituð um það hvað við verðum að passa okkur á plastinu og allri plastnotkun. En ég vildi sem sagt segja frá því að það sem kemur frá hjólbörðum er t.d. þrefalt á við það efni sem berst út í hafið vegna málunar og viðhalds skipa og smábáta.

Þetta er mál sem við verðum auðvitað að taka föstum tökum. Það var alveg rétt sem þingmaðurinn fór yfir, það hafa verið nefndir í gangi um að takmarka plastnotkun eins og burðarpoka og komið tímaplan á það hvernig við gerum það og það er að komast á laggirnar nefnd um frekari plastnotkun. En ef þetta er svona alvarlegt þá er auðvitað alveg sjálfsagt að skoða þessa skýrslu enn betur og reyna að læra af henni. En ég mun í seinna svari mínu fara aðeins frekar yfir þetta.