145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

staðsetning Lögregluskólans.

[15:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér leikur forvitni á að vita hvaða sjónarmið nákvæmlega lágu að baki því að hæstv. menntamálaráðherra ákvað að lögreglunámið mundi eiga sér stað í Háskólanum á Akureyri. Mig langar að vita hvort þar hafi legið t.d. kjördæmissjónarmið eða byggðasjónarmið að baki því að samkvæmt mati matsnefndarinnar, samkvæmt punktagjöf þeirra, þá var Háskóli Íslands með 128 stig af 135 en Háskólinn á Akureyri með 116 stig af 135. Út frá faglegum sjónarmiðum veltir maður fyrir sér hvernig ákvörðun er tekin í raun og veru um að taka ekki þann skóla sem er með besta faglega matið. Í svona ákvörðunartökum langar mig að vita almennt séð hvaða faglegu forsendur liggja þá að baki eða hvaða forsendur liggja að baki því að taka ekki þann skóla sem er með besta faglega matið eða hvaða stofnun sem það er almennt séð, hvort það er háð geðþótta eða hvort það er háð einhverju öðru sem ráðherra getur kannski upplýst okkur um.

Ég vil að sjálfsögðu taka fram að ég hef ekkert á móti því að þetta tiltekna nám sé úti á landi heldur langar mig að vita af hverju þessi ákvörðun var tekin, hvaða sjónarmið liggja nákvæmlega að baki, því að ekki var valinn sá skóli sem fékk besta matið hjá matsnefnd.