145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

stefna stjórnvalda í samgöngumálum.

[15:35]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulega forseti. Ég tek undir það, ég sakna einmitt dýpri umræðu um ríkisfjármálin næstu fimm árin heldur en hér er boðið upp á. Ég vil benda hæstv. ráðherra á bls. 14 í hans eigin ríkisfjármálaáætlun þar sem talað er um fjárfestingarhlutfallið, að það sé undir langtímamarkmiði og muni lækka enn frekar þegar líður á tímabilið, bls. 14, hæstv. ráðherra.

Vilji er auðvitað allt sem þarf og innviðauppbygging er eitt af því sem ekki má vanrækja. Það hefur ekkert samfélag efni á því að vannýta eigin tekjustofna eins og verið er að gera og safna ekki til mögru áranna og fjárfesta ekki í innviðum, því að fjárfesting í innviðum er auðvitað það sem skapar framtíðarauð og leggur grunn að framtíðarvexti og tekjumyndun ríkisins. Að tala um að það þurfi að gæta aðhalds í innviðauppbyggingu vegna þensluhættu verður vægast sagt hjáróma, eins og boðið hefur verið upp á, þegar síðan er litið til skattalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) til hagsbóta auðjöfrunum. Ef það er eitthvað sem er þensluhvetjandi er það skattalækkunarstefna ríkisstjórnarinnar.