145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

fjármögnun samgöngukerfisins.

751. mál
[15:47]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í þessa umræðu. Það er auðvitað öllum ljóst að samgönguinnviðirnir munu að óbreyttu ekki halda í við álagið sem hraðvaxandi ferðaþjónusta veldur á þeim innviðum með miklu sliti á vegum og aukinni slysahættu. Dauðaslysum er farið að fjölga í umferðinni, á vegunum, fjölgaði úr þremur í níu á milli áranna 2014–2015 og slitið á vegunum er öllum ljóst. Þetta horfir allt í eina átt.

Hins vegar hef ég á tilfinningunni að fjármögnunin sé kannski ekki vandamálið þegar kemur að spurningunni um að halda við samgönguinnviðum og innviðum almennt. Eins og hefur komið fram í umræðum um ríkisfjármálaáætlun er 400 milljarða yfirflot á ríkissjóði. Þetta virðist vera spurning um vilja (Forseti hringir.) en ekki vöntun á fjármunum. Það er það sem ég hef þungar áhyggjur af, (Forseti hringir.) forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar og viljaleysi hennar til að fjárfesta í innviðum.