145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

fjármögnun samgöngukerfisins.

751. mál
[15:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Mig langar vegna þess að hæstv. ráðherra hefur afar stuttan tíma til að bregðast við hér í lokin að spyrja hana að tvennu. Annars vegar er það hvað hún telji að eigi að vera meginmarkmiðið með fjármögnun samgöngukerfisins. Komið hefur fram að farnar hafa verið ýmsar leiðir, bæði með beinum framlögum úr ríkissjóði og svo með mörkuðum tekjum sem við þekkjum umræðuna um, sem hefur verið í tengslum við ríkisfjármálaáætlanir og breytta sýn á rekstur ríkisins. Þar aftur á móti glötum við ákveðnu samhengi á milli þess hvernig við innheimtum gjöld og hvernig við síðan ráðstöfum þeim, þ.e. umhverfissjónarmiðunum. Ég vildi fá að heyra aðeins í ráðherranum með þau sjónarmið, af því að þau eru mikilvæg frá hennar sjónarhóli.

Síðan sem fulltrúi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, sem er núna á lokametrunum fyrir kosningar að klára að vinna mál o.s.frv., langar mig að árétta spurningu sem kom fram í máli hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur sem snýst um það snúna viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir varðandi samgönguáætlun. Hæstv. ráðherra hefur talað um ríkisfjármálaáætlun og að það sé hið besta mál og gríðarlega gott plagg inn í framtíðina, leggur síðan sjálf fram tillögu til samgönguáætlunar þar sem gert er ráð fyrir meira fé og hæstv. ráðherra talaði sérstaklega um það þegar hún mælti fyrir samgönguáætlun að þetta væri áætlun sem hún treysti sér til að standa með vegna þess að hún var jú gagnrýnd ansi hressilega fyrir að þetta væru of lágar tölur. Nú spyr ég: Ef við ætluðum að vera skikkanlegir þingmenn sem værum í góðum takti við framkvæmdarvaldið, eigum við þá að skera þessa samgönguáætlun niður í samræmi við ríkisfjármálaáætlun?