145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

ferðavenjukönnun.

752. mál
[15:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ljóst er að umræðan um samgöngumál er mjög samtvinnuð umræðunni um loftslagsmál. Því hefur jafnvel verið haldið fram þegar við horfum til breytinga á lífsháttum og neyslumynstri o.s.frv. að þá séu mestu sóknarfæri okkar í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í gegnum breytingar á samgönguvenjum og ferðavenjum.

Þar sem ég er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður og borgarfulltrúi í Reykjavík vill svo til að ég vissi þar um plagg, sem hefur verið gert a.m.k. tvisvar ef ekki oftar af hendi höfuðborgarinnar, sem er ferðavenjukönnun og snýst um það að við sjáum þróun þess hvernig ferðavenjur fólks eru, þ.e. hversu mikið fer fólk í strætó, hversu mikið hjólar það, hversu mikið gengur það og hversu mikið notar það einkabíl. Vegna þess að þær kannanir tala síðan við áætlanir hins opinbera á hverjum tíma um uppbyggingu kerfanna, um það að hve miklu leyti við þurfum að bæta í að því er varðar sérstakar akreinar fyrir almenningssamgöngur eða sérstakar akreinar fyrir reiðhjól, að styrkja samgöngunet fyrir þá sem kjósa að ganga o.s.frv. Höfuðborgarsvæðið er það svæði samgöngukerfisins á Íslandi sem mest mæðir á. Þarna býr samgönguráðherra vel að geta nýtt sér slíkar upplýsingar sem höfuðborgarsvæðið hefur lagt sig fram um að halda til haga til að geta metið þróun þessa hlutar daglegs lífs hjá almenningi á Íslandi.

Við eigum orðið allnokkur ár þar sem við höfum verið að auka áherslur til að mynda á almenningssamgöngur um landið allt. Við höfum verið að bæta í strætó og við vitum að töluverð aukning hefur verið á notkun strætó úti um land. Við vitum líka að töluverð aukning hefur verið á því að fólk notfæri sér strætó jafnvel milli byggðakjarna, það er búsett á einum þéttbýlisstað og vinnur á öðrum og nýtir sér strætó til að komast á milli. En við höfum ekki tölurnar. Við höfum ekki tölurnar nákvæmlega um hvernig fólk gerir þetta og hvernig það vill gera þetta. Það sama gildir um strætó og reiðhjól. Við sjáum að það vex mjög mikið að fólk noti reiðhjól allt árið um kring. Við sjáum dúðaðar hjólakempur í roki og byl um hávetur. Þetta eru mikilvægar breytingar og mikilvægar breytingar í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem er eitt af okkar stærstu verkefnum.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki rétt og tilefni til að láta (Forseti hringir.) gera ferðavenjukönnun fyrir landið allt.