145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

ferðavenjukönnun.

752. mál
[16:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og má segja að tilganginum sé náð með fyrirspurninni, því að það var einfaldlega mitt markmið með fyrirspurninni að hvetja ráðherrann til dáða í þessu efni. Ég tel að markmiðið með henni hafi skilað sér að öllu leyti þegar þessi ítarlegi skilningur ráðherrans kemur fram í hennar góða svari.

Ekki er síður mikilvægt en að kortleggja venjur eða ferðavenjur almennings að gera sér grein fyrir því sem mætti kannski kalla ferðavæntingar almennings, þ.e. með hvaða hætti fólk mundi vilja sjá kerfið þróast, af því að kerfið er náttúrlega í stöðugri skoðun. Þá eigum við ekki síst að hlusta eftir því hvaða væntingar ungt fólk hefur til þess hvernig innviðir og samgöngukerfi eigi að þróast vegna þess að þar erum við hreinlega í samkeppni um búsetukosti við löndin í kringum okkur. Við sjáum að það vex ekki ungu fólki í augum að flytja utan þegar það hefur vegið og metið kosti og galla við að búa á Ísland. Þá erum við með samgöngukerfið meðal annars undir. Við erum auðvitað með fæðingarorlofskerfið, leikskólana, lánasjóðinn, húsnæðiskerfið, mjög margt annað sem ungt fólk horfir til þegar það ber saman kosti og möguleika. En eitt af því sem einkennir svo mikið daglegt líf og ég held að við þekkjum öll sem höfum búið um lengri eða skemmri tíma erlendis, er sá möguleiki að komast á milli staða án þess að vera háður einkabíl, þ.e. geta með tiltölulega auðveldum hætti nýtt sér almenningssamgöngur, treyst því að það sé gott, þétt og öruggt kerfi til að komast á milli staða. Þar held ég að við verðum að gæta þess að vera ekki eftirbátar nágrannaþjóða okkar.