145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

vegagerð í Gufudalssveit.

760. mál
[16:13]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Það er kannski ekki hægt í einnar mínútu ræðu að ræða málefni þessarar veglagningar, svo langa sögu sem hún á, en ég kem hér upp til vitnis um að það er enn þá einhugur og áhugi þingmanna, sveitarstjórnarmanna og íbúa á svæðinu að þoka þessari vegaframkvæmd áfram. Ég fagna þess vegna þeim orðum hæstv. innanríkisráðherra sem hún lét falla. Hvort hið nýja umhverfismat liggur fyrir og hvenær það liggur fyrir skiptir okkur verulega miklu máli því að við erum að fara inn í enn einn veturinn þar sem við horfum á veturinn koma og erfiða færð, allt sem hv. þingmaður rakti áðan. En meginerindi mitt upp í ræðustólinn er einfaldlega að endurspegla að þrýstingurinn er enn þá hár og full samstaða er um að þoka þessu máli áfram. Það má ekki dragast mikið meira úr hömlu að við tökum ákvörðun um þessa veglagningu, hvort sem það verður síðan hægt að skipta henni í eitt eða tvö útboð.