145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

vegagerð í Gufudalssveit.

760. mál
[16:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er enginn vafi á því að það er löngu tímabært að fá botn í þetta mál. Það er mikilvægt í öllu tilliti að það sé svo mikil samstaða um það að málið klárist. Ég held að við verðum að hinkra eftir því að niðurstaðan komi til að taka næstu skref. Það er mikilvægt að við förum varlega í ferlinu og pössum okkur á því að allt sé gert hundrað prósent þannig að málið fái farsælar lyktir. Ég leyfi mér að vera svo bjartsýn að trúa því að við séum að sjá til enda í þessu. Ég vonast til að það verði staðfest síðar í haust.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að nefna að með þessu verða samgöngumál Vestfirðinga komin í allt annað horf en áður var, þegar við losnum loksins við þessa fyrstu kynslóð þjóðvegakerfis sem þarna er við að glíma. Þótt ýmislegt sé náttúrlega eftir, við erum að fara í Dýrafjarðargöng næst, við skulum ekki gleyma því, þá höfum við samt náð töluverðum árangri í að bæta samgöngur vestur. Ég hygg að það sé nú þannig að við getum búist við því að vera álíka lengi að aka til Ísafjarðar og til Akureyrar og er það töluvert mikil breyting frá því sem við þekktum áður.