145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

skipting Reykjavíkurkjördæma.

761. mál
[16:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég held að þetta sé sjónarmið sem við þurfum að horfa til. Ég tek undir það með hv. þingmanni, ég held að það hafi eftir á að hyggja ekki verið skynsamlegt að skipta Reykjavík eins og gert var með þessum breytingum. Hvers vegna var Reykjavík bara ekki höfð þá í heilu lagi? Nú sjáum við að Suðvesturkjördæmið þenst mjög út en stærðarmörk voru grundvöllur þess að kjördæmið er eins og það er. Þá þarf einmitt að líta til þess hvernig kjördæmaskipting getur þjónað því verkefni sem þetta snýst allt um, að þingmenn eru að sjálfsögðu fulltrúar sinna kjósenda. Þó að fulltrúar Reykjavíkur, þingmenn Reykjavíkur, þau sem hér sitja, séu að sjálfsögðu þingmenn alls landsins þarf að gæta þess að menn hafi það á tilfinningunni að þingmenn Reykjavíkur séu í þeirri stöðu.

Ég ætla nú að hefjast handa við að svara spurningunni. Eins og komið hefur fram hefur fyrirkomulagið verið með þessum hætti frá 2000 en það er byggt á ákvæðum stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, um breytta kjördæmaskipan. Sú skipan var í öllum meginatriðum í samræmi við aðaltillögur nefndar sem unnið hafði að undirbúningi málsins. Fyrst reyndi á þessa skiptingu við alþingiskosningarnar 2003 og allar alþingiskosningar síðan en einnig við aðrar kosningar þar sem fylgt er kjördæmaskipan alþingiskosninga, t.d. í forsetakosningum.

Í 1. mgr. 7. gr. laga um kosningar til Alþingis segir að þegar boðað hafi verið til almennra alþingiskosninga skuli landskjörstjórn ákveða mörk kjördæma í Reykjavík miðað við íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag. Skuli mörkin við það miðuð að kjósendur í hvoru kjördæmi um sig að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, séu nokkurn veginn jafn margir. Gæta skuli þess, eftir því sem kostur er, að hvort kjördæmi sé sem samfelldust heild. Ekki kemur fram í lagatextanum hve miklu megi muna á fjölda kjósenda að baki þingsætum í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna en í greinargerðinni er miðað við að ekki megi skakka meira en 2–3%. Ekki hefur landskjörstjórn þó frjálst val um það á hvern hátt Reykjavíkurborg verður skipt svo fullnægt sé framangreindum kröfum laganna en þar er kveðið á um að Reykjavík skuli skipta frá vestri til austurs í tvö kjördæmi, suðurkjördæmi og norðurkjördæmi. Ekki er því hægt að óbreyttum lögum að skipta Reykjavíkurborg í tvö kjördæmi og draga línuna frá norðri til suðurs.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum um kosningar til Alþingis fólst í þessu ákvæði frávik frá þeim nefndartillögum sem lágu til grundvallar breytingunum á kjördæmamörkum en þar var gert ráð fyrir skiptingu Reykjavíkurborgar í vestur- og austurkjördæmi. Um ástæður þessa segir í greinargerðinni:

„Er sú skipan talin gefa betri þverskurð af íbúum borgarinnar með tilliti til aldursdreifingar, hverfaskiptingar, þjónustu sem veitt er í hvoru kjördæmi um sig o.fl. Auk þess ættu meginumferðaræðar borgarinnar um Miklubraut og Vesturlandsveg að nýtast vel til að draga mörk hvors kjördæmis um sig, einnig með tilliti til uppbyggingar nýrra hverfa og framtíðarþróunar borgarinnar.“

Ekki liggur fyrir að þessar forsendur hafi breyst. Það hefur ekki verið sérstaklega kannað. Hitt er annað mál að tæknilega ætti að vera hægt að skipta Reykjavíkurborg í vestur- og austurkjördæmi þannig að kjósendur í hvoru þeirra yrðu nokkurn veginn jafn margir stæði vilji Alþingis til þess. Sem dæmi má taka að ef lína yrði dregin eftir Reykjanesbraut og út í Elliðaárósa mundu samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands rúmlega 64.000 íbúar lenda vestan megin línunnar en rúmlega 59.000 að austanverðu.

Ég vil að endingu taka það fram og lýsa þeirri skoðun minni að ég held að við þurfum ávallt að líta til þess hver tilgangurinn er með þessu öllu saman. Náum við þeim markmiðum sem við teljum okkur best ná með því að skipta kjördæminu eins og þarna er gert eða eigum við að fara einhverjar aðrar leiðir? Í mínum huga þyrfti það að vera að vissu leyti til skoðunar í hvert skipti hvort rétt sé með farið. Við þekkjum það í Reykjavík að fólk er fært til á milli kjördæma. Það er mjög sérkennileg staða í kjördæmi eins og Reykjavík að það sé óljóst hvort menn lenda í norðurkjördæmi eða suðurkjördæmi. Í því felst að vissu leyti að hin hefðbundna kjördæmaskipting virðist ekki lifa með sama hætti í þessum tillögum eða þessum hugmyndum og er í öðrum kjördæmum þar sem ég hygg að það þætti mjög undarlegt ef kjördæmaskipanin væri færð til rétt fyrir kosningar.