145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

skipting Reykjavíkurkjördæma.

761. mál
[16:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé afar brýnt fyrir alla þingmenn Reykjavíkur að hefja betri umræðu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum horft upp á það mjög lengi að í samgöngumálum eru dálítið önnur sjónarmið uppi í höfuðborginni en annars staðar. Ríkið hefur skyldum að gegna í höfuðborginni í samgöngumálum. Hér eru stofnanir og hér þarf að mínu viti að fara í miklar fjárfestingar í samgöngumálum. Mér finnst ekki hægt að horfa á hlutina þannig að þeim sé alltaf stillt upp hvorum á móti öðrum, að þegar talað er fyrir nauðsynlegum fjárfestingum í samgönguinnviðum sé um leið dregið úr mikilvægi þess að almenningssamgöngur séu í lagi. Þetta hlýtur að geta unnið saman. Það eru mismunandi sjónarmið eftir hverfum borgarinnar. Þeir sem búa í efri byggðum borgarinnar þurfa að geta sótt vinnu, oft og tíðum á miðsvæðið. Svo getum við líka rætt það að miðpunktur höfuðborgarinnar hefur auðvitað verið að hreyfast til. Suðvesturkjördæmið er ansi þungt þegar við förum að skoða hvar miðpunktur höfuðborgarsvæðisins er. Tökum Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélög og þá sjáum við að sá miðpunktur er að færast langleiðina inn í Kópavog. Þarna eru miklar breytingar og ég held að við þurfum að líta til þessa.

Varðandi kjördæmaskipunina, umfram það sem við hv. þingmaður höfum verið að ræða hér í tilefni af þessari fyrirspurn, held ég líka að annars staðar á landinu séu önnur sjónarmið. Ég þekki það sjálf sem fyrrverandi þingmaður í Norðausturkjördæmi að við erum með alveg gríðarlega stór landsbyggðarkjördæmi. Það er líka vandi fyrir fulltrúa landsbyggðarinnar að fara um þessi feikilega stóru kjördæmi og hitta kjósendur. Mér finnst ósköp eðlilegt að með reglulegu millibili sé það rætt hvort við séum með þá kjördæmaskipan sem við viljum hafa eða hvort gera eigi á henni einhverjar tilteknar breytingar.