145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í síðustu viku fór hér fram umræða um frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um námslán og námsstuðning. Það var góð og málefnaleg umræða sem stóð í heilan dag og ýmis sjónarmið komu fram, ekki síst þau að í jafn stóru og umfangsmiklu máli þar sem ætlunin er að gera grundvallarbreytingu á menntakerfinu þarf tíma. Það þarf tíma til að skoða hvaða afleiðingar slíkar breytingar geta haft. Þessi hugsun leitaði á mig aftur í morgun þegar ég kynnti mér umsögn Háskóla Íslands sem núna hefur sent hv. allsherjar- og menntamálanefnd umsögn sína um málið og fékk Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að skoða það sérstaklega. Þar kemur m.a. fram að greiðslubyrði vissra hópa af námslánum á eftir að þyngjast verulega ef þetta nýja kerfi verður tekið upp. Til að mynda kemur fram í ályktun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að einstæðir foreldrar í fimm ára námi, sem á t.d. við um kennaranám, leikskólakennaranám, framhaldsskólakennaranám, grunnskólakennaranám, nám þar sem okkur beinlínis vantar fólk, muni borga meira af lánum í nýju kerfi. Í raun og veru er sagt óháð því hvaða nám þeir stunda. Þetta á því ekki bara við um kennaranámið, en ég vek bara athygli á að það er af þessari lengd.

Í umsögninni er líka bent á að þegar málið var hér til umræðu var miðað við meðallaun, en fæstir eru auðvitað í meðallaunum. Bent er á að miðgildi tekna eru allt aðrar stærðir en þegar rætt er um meðallaun. Þessi umsögn sem töluvert hefur verið lagt í af hálfu Háskóla Íslands og Hagfræðistofnunar bendir til þess að það eigi eftir að skoða fjölmörg atriði í frumvarpinu, sérstaklega hvort það muni hafa áhrif á hvaða nám nemendur velja sér, að nemendur muni fremur velja sér nám út frá tekjumöguleikum að loknu námi, sem er auðvitað gríðarlega stór grundvallarbreyting, og að það muni hafa áhrif á jafnrétti til náms sem stangast þvert á opinbert markmið frumvarpsins.

Ég get því ekki annað en varað við því, herra forseti, þegar ég les þessar alvarlegu athugasemdir, (Forseti hringir.) ef ætlunin er að afgreiða jafn stóra grundvallarbreytingu á íslensku menntakerfi (Forseti hringir.) í gegnum þingið á einhverju hundavaði. Það getum við ekki leyft okkur, herra forseti.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna