145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Hrunið sem hér varð árið 2008 lét nánast engan Íslending ósnortinn. Fólk missti heimili sín, fyrirtæki, vinnuna, þeir sem ekki misstu vinnuna urðu fyrir launaskerðingum í nokkur ár. En það var einn hópur sem tapaði ekki í hruninu heldur stórgræddi á því. Það voru erlendir kröfuhafar. Ríkisstjórn þess tíma á árunum 2010–2013 afhenti þessum aðilum íslensku bankana með einu pennastriki og það er væntanlega stærsti gjafagerningur í Íslandssögunni samanlagðri. (Gripið fram í.) Svo vill til að nú er búið að endurheimta nokkuð af þessu í gegnum stöðugleikaframlög sem unnin voru undir forustu framsóknarmanna.

Það sætir hins vegar nokkrum tíðindum að slitabúin eru núna búin að ráða sér nokkra rukkara til þess að hámarka gróða sinn af áðurnefndum gjafagerningi. Við vitum ekki hvaða eignir þetta eru. Eru þetta fyrirtæki sem voru rifin af fólki? Eru þetta heimili þess? Við vitum ekki hvaða eignir þetta eru. En rukkararnir eiga að innheimta þessa peninga og fyrir þá vinnu sína eiga þeir að fá bónusa sem eru eins og ársvelta lítilla fyrirtækja.

Ég vil nefna það sem hægt er að gera til þess að vinda ofan af þessu. Glaður vil ég að slitabúin skili peningum aftur til Íslands eins og þarna er ráð fyrir gert, ég kæri mig bara ekki um að þeir lendi í fjögurra eða fimm manna höndum. Ég mundi leggja til að við yrðum fljót að setja lög um það að 90–98% skattur yrði lagður á slíkar bónusgreiðslur þannig að við gætum tryggt að þessi framlög slitabúanna sem eru að koma til Íslands færu ekki til fjögurra til fimm manna hóps heldur þjóðarinnar allrar.


Efnisorð er vísa í ræðuna