145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að fagna því að Háskólinn á Akureyri skuli hafa fengið til sín kennslu og rannsóknastarfsemi á sviði lögreglufræða. Í þingsal hefur umræðan því miður verið frekar neikvæð gagnvart þessari ákvörðun, sem mér þykir afar miður. Loksins hefur náðst niðurstaða í mál sem því miður hefur velkst allt of lengi í kerfinu og í rauninni ljóður á hversu seint það var afgreitt. Við tölum hér á góðum stundum um að hægt sé að flytja ný störf, þ.e. ný tækifæri, út í hinar dreifðu byggðir. Þetta er eitt af þeim.

Háskólinn á Akureyri býður upp á allar þær stoðir sem svona nám þarfnast, hvort sem við tölum um sálfræði, afbrotafræði eða lögfræði, og hefur langa reynslu af því að byggja upp starfsnám á háskólastigi. Mikilvægt er að halda því til haga að áfram verður verklegt nám, eins og forgangsakstur, skotvopnaþjálfun eða tilfinningastjórn lögreglumanna á vettvangi, á höfuðborgarsvæðinu, hjá mennta- og starfsþróunarsetrinu, sem er nýtt og er starfrækt hjá ríkislögreglustjóra.

Ég hef rætt við marga lögreglumenn, m.a. forsvarsmenn félags lögreglumanna sem lýstu yfir áhuga á því að námið yrði í Háskólanum á Akureyri, m.a. vegna þess að þar hefur verið öflugt fjarnám sem skólinn hefur státað af til margra ára og líklegra að þeir sem starfa um hinar dreifðu byggðir muni frekar sækja í námið yrði það við háskólann þar en þeir mundu gera ef það væri á stórhöfuðborgarsvæðinu og ólíklegra að þeir mundu þurfa að taka sig upp miðað við fjarnámið.

Skólinn er lítill og tilfinning lögreglumannanna sem ég hef rætt við hefur verið á þann veg að náminu og utanumhaldi nemenda yrði betur borgið í minni skóla en stærri.

Námið er til tveggja ára. Það er hægt að ljúka því með BA-námi í lögreglufræðum og að auki er gert ráð fyrir fræðasetri með áherslu á rannsóknir í lögreglufræðum sem hafa því miður verið af of skornum skammti fram til þessa. Fram undan eru spennandi tímar og mikilvægt að byggja upp þekkingu úti á landi og afar vel einnig í þessu samhengi að huga að endurmenntun starfandi lögreglumanna en hún hefur verið af skornum skammti.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna