145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því að fá fulltrúa afurðastöðva sláturleyfishafa og fulltrúa Landssambands sauðfjárbænda á fund í atvinnuveganefnd í morgun til að ræða þá stöðu að afurðaverð til sauðfjárbænda lækkar mikið þessa dagana. Það er mikið áhyggjuefni og maður spyr sig núna þegar við erum að fara að ræða búvörusamninginn í dag hvort þau samningsmarkmið sem þar koma fram gagnvart sauðfjárbændum séu brostin. Þar er gert ráð fyrir því að hækkanir verði til bænda umfram verðlagshækkanir um 7,5% á næstu árum.

Það kom líka fram að sláturhúsin mörg hver eru í mjög erfiðri stöðu og óvíst hvort öll þau sláturhús sem eru í landinu í dag eftir mikla hagræðingu þar lifi af jafnvel næsta ár. Við þekkjum það að launalækkanir eins og þarna koma fram til bænda virðast lenda fyrst og fremst á frumatvinnugreininni á endanum þar sem stórverslanir eins og Hagar taka út milljarða í arð og selja vöru í gegnum afurðastöðvar frá sér og hagnast greinilega mikið. Er eðlilegt að það sé engin sveiflujöfnun þarna í gangi og þessi stétt þurfi stöðugt að vera að taka á sig launalækkanir og búa við þetta óörugga umhverfi?

Mér finnst að við þurfum að skoða hvort með einhverjum hætti sé hægt að mæta þessari grein, eins og að koma til móts við hana þegar kemur að flutningsjöfnunarsjóðnum sem er starfandi varðandi útflutningsgreinarnar sem eru langt frá markaðssvæðum. Ástandið er þannig að ef fleiri sláturhús t.d. fara að loka, sem liggur í loftinu, (Forseti hringir.) hver á þá að sækja sláturfé til þeirra afskekktu svæða sem eru fjærst sláturhúsum? Þetta er gífurlega alvarleg staða hjá sauðfjárbændum mörgum hverjum í dag og við þurfum að taka vel á hér á Alþingi og skoða með þeim.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna