145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér þykir ólíklegt að upphaflegir kröfuhafar íslensku bankanna hafi verið mjög hamingjusamir þegar þeir stóðu frammi fyrir því sem nú hefur raungerst, að þurfa að afskrifa milli 6 og 7 þúsund milljarða kr. vegna hrunsins á Íslandi. Stærstur hluti þess reiknings lenti í Þýskalandi.

Það fer að verða svolítið slitin plata þessi lygafáfræðiþvælumálflutningur framsóknarmanna um að kröfuhöfum hafi verið gefnir eða afhentir bankar. Þeim voru ekki afhentir bankar. Þeim voru ekki gefnir bankar. Þeir kusu að reiða fram allt eigið fé sem þurfti til að fjármagna tvo nýja banka og það er ekki gjöf. En það má halda því fram að erlendum kröfuhöfum hafi loksins verið gefið eitthvað núna þegar núverandi ríkisstjórn féllst á að sleppa þeim við að greiða stöðugleikaskatt og fara út með mörg hundruð milljörðum kr. lægri stöðugleikaframlög. Það er nær því að geta kallast gjöf en hin þvælan.

Að öðru leyti, virðulegur forseti, ætlaði ég að nefna bónusana, eins og fleiri hafa gert, og taka einfaldlega undir það að við eigum að sameinast um að senda sterk skilaboð frá Alþingi um að þetta ætlum við ekki að líða. Þessa nöktu birtingarmynd nýfrjálshyggjugræðgiskapítalismans viljum við ekki sjá aftur á Íslandi. Það er nóg komið af því. Við þurfum að taka til þeirra ráða sem tiltæk eru gagnvart þessu. Þetta eru vissulega ekki fjármálafyrirtæki sem falla beint undir viðmiðunarreglur FME um kaupauka, en ein leið gæti verið að setja um það lagaákvæði að þau skuli í þessum skilningi teljast fjármálafyrirtæki og falla undir reglurnar, af því að þau eru gömul fjármálafyrirtæki þó endurfjármögnuð séu.

Í öðru lagi kæmi til greina að setja einfaldlega almenn lög fyrir viðskiptalífið allt um að kaupaukar skuli vera afar hófsamlegir, ef þeir yfir höfuð eiga að fyrirfinnast og líðast.

Í þriðja lagi og það höfum við algerlega í okkar valdi hér, að gera þessa ofurbónusa upptæka með skattlagningu. Það er einföld aðgerð að bæta við álagsákvæðum inn í tekjuskattslög um að (Forseti hringir.) kaupaukar af þessu tagi, t.d. yfir viðmiðunarmörkum FME, skuli að uppistöðu til gerðir upptækir með skattlagningu.


Efnisorð er vísa í ræðuna