145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér í byrjun nefndarálit mitt, sem skipa 1. minni hluta atvinnuveganefndar, um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar og búnaðarlagasamningur).

Fyrir það fyrsta nefni ég að 1. minni hluti telur rétt að benda á þá stöðu sem þingið er sett í hvað varðar gerð og staðfestingu búvörusamninga. Samningurinn er gerður milli ráðherra í ríkisstjórn og Bændasamtakanna án nokkurrar aðkomu Alþingis á undirbúnings- og samningatíma. Málunum er eins háttað núna og venjulega, þ.e. þingið stendur frammi fyrir orðnum hlut og getur nær engu breytt þar sem því er þá haldið fram að samningurinn haldi ekki og verði að fara í aðra atkvæðagreiðslu meðal bænda.

Fyrsti minni hluti telur þetta óásættanlega stöðu fyrir Alþingi og alþingismenn og telur rétt að ráðherra leggi fram samningsmarkmið í formi þingsályktunartillögu sem Alþingi getur rætt og lagt til breytingar á ef svo ber undir. Þau samningsmarkmið sem hefðu fengið umræðu á Alþingi yrðu svo undirstaða viðræðna ríkisins við bændur við gerð búvörusamnings sem Alþingi mundi svo samþykkja að loknu slíku ferli.

Á fundum nefndarinnar hafa komið fram margvíslegar athugasemdir og gagnrýni frá umsagnaraðilum og gestum sem með hliðsjón af framansögðu er í raun ekki hægt að bregðast við. Þó leggur 1. minni hluti fram eftirfarandi breytingartillögur:

Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra tilnefni fulltrúa minni vinnslufyrirtækja mjólkurafurða í verðlagsnefnd búvöru og munu Samtök afurðastöðva fyrir búvöru þá tilnefna einn fulltrúa en samkvæmt gildandi lögum tilnefna síðarnefnd samtök tvo fulltrúa. Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að samkeppni hefur aukist í þessari grein og minni aðilar hafa haslað sér völl og er breytingartillagan lögð fram til að leitast við að treysta stöðu þeirra.

Nefna má merkilegt framtak bæði Örnu í Bolungarvík, áður Mjólku og nú fyrirtækisins Kú í þessu sambandi. Þarna geng ég lengra en meiri hlutinn gerir sem leggur til að þessir minni aðilar fái að tilnefna áheyrnarfulltrúa í verðlagsráð búvara. Ég legg til að þessu verði skipt og tel ég að það gæti verið góð leið til aukinna sátta um þessi mál, til að ræða þau þar inni.

Í öðru lagi leggur 1. minni hluti til að skýrt verði kveðið á um að gildistími samninganna sé til þriggja ára og eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum þar að lútandi. Mikil gagnrýni hefur komið fram um lengd samninganna til tíu ára og er þar um tvö kjörtímabil að ræða.

Í því sambandi vil ég nefna að eftir beiðni mína var kallaður á fund nefndarinnar prófessor við Háskóla Íslands sem er sérfræðingur í samningarétti, sem fór yfir málin með okkur og þessa tillögu taldi ég nauðsynlegt að flytja í framhaldi af því. Þess skal getið að sá ágæti fulltrúi sem kom fyrir nefndina benti líka á að það væri til mikils skýrleika og til bóta ef samningsaðilar, þ.e. fulltrúar ríkisvaldsins og bændasamtaka, kæmu sér saman um bókun sem mundi fylgja með málinu hér um að um þriggja ára samning væri að ræða sem hægt væri að taka upp frá báðum aðilum, en svo er í raun ekki nógu skýrt kveðið á um nú.

Ég hef gengið eftir því og spurt hvort þessi bókun muni koma. Því var svarað til af þeim sem skipa meiri hluta nefndarinnar að að því yrði unnið fyrir 3. umr. Ég tel afar mikilvægt að það komi fram.

Í þriðja lagi er lagt til að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum falli brott og sömuleiðis 3. mgr. 13. gr. laganna en þar er mælt fyrir um að verðtilfærslur milli afurðastöðva í mjólkuriðnaði séu heimilar þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga. Einnig er lögð til viðbót við 13. gr. laganna um skyldu afurðastöðvar til að selja öðrum vinnsluaðilum mjólk á verði sem samræmist 1. mgr. 13. gr. laganna. Breytingin byggist að mestu leyti á tillögum sem Samkeppniseftirlitið sendi nefndinni með minnisblaði, dagsett 23. ágúst 2016, en nefndin hafði óskað eftir tillögum frá eftirlitinu í þessa veru.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því að nefndin hafi óskað eftir tillögum í þessa veru sem ég geri hér að tillögum mínum. Um þetta má hafa mörg orð. Það hefur mikið verið rætt m.a. í nefndinni og eins komu eftir beiðni mína fulltrúar frá MS og Auðhumlu til fundarins til að ræða þessi mál. Það sem gerðist var að það þurftu ekki margir að koma inn. Nánast sömu menn sitja í stjórn MS og Auðhumlu. Í Auðhumlu er að vísu sjö manna stjórn en fimm manna stjórn í MS, en mikið til skipuð sama fólki. Þá var skráð þannig inn, sem kunna að hafa verið mistök og þau verið leiðrétt, ég vil taka það skýrt fram, að framkvæmdastjóri Auðhumlu var skráður sem starfsmaður MS. Hvernig þetta er gert sýnir að í nútímaþjóðfélagi í dag, nútímarekstri, getur þetta ekki gengið svona. Það kom fram t.d., ef ég man rétt, að MS leigir Auðhumlu bíla og tæki til að safna mjólk, en Auðhumla er hins vegar eignarhaldsfélag sem á fullt af fasteignum og leigir MS. Þetta er ekki form sem á að vera til árið 2016. Vitna ég í það sem ég sagði áðan í stuttu andsvari við hv. þm. Harald Benediktsson að það kann vel að vera, og ég er nokkuð sammála því, að undanþágan hafi verið nauðsynleg fram að þessu en ég er algjörlega á því núna að undanþáguna eigi að fella úr gildi og ítreka það sem ég sagði áðan að mér hefði fundist betra að sú tillaga hefði komið bæði frá Bændasamtökunum og þessum fyrirtækjum.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á 3. mgr. 65. gr. laganna um úthlutun tollkvóta þess efnis að hlutkesti skuli ráða úthlutun tollkvóta ef það berast umsóknir um meiri innflutning en sem tollkvótanum nemur. Þó er jafnframt kveðið á um að hver umsækjandi eða tengdur aðili geti að hámarki fengið 15% af heildarmagni.

Ef ég hef tíma, virðulegi forseti, þegar ég er kominn í gegnum þetta nefndarálit mun ég setja fram frekari rökstuðning í þessu máli.

Í fimmta lagi leggur 1. minni hluti til að við frumvarpið bætist ákvæði þess efnis að unnt verði að afnema greiðslur frá hinu opinbera til þeirra sem hafa ítrekað brotið gegn lögum um velferð dýra. 1. minni hluti bendir á að í því frumvarpi sem varð að lögum um velferð dýra, þ.e. 283. mál á 141. löggjafarþingi, var ákvæði í þessa veru en það var fellt brott í meðförum þáverandi atvinnuveganefndar. Í áliti nefndarinnar á þskj. 1216 kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Nefndin tekur þó fram að tilvist úrræðisins er eðlileg og í góðu samhengi við þær kröfur sem telja má eðlilegt að gera til gagnaðila ríkisins að samningum sem fela í sér ráðstöfun opinbers fjár. Því beinir nefndin þeirri beiðni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að það taki til sérstakrar skoðunar hvort ekki sé rétt að skapa rými til upptöku úrræðisins við síðara tilefni, t.d. við endurskoðun búnaðar- og búvörulaga og endurnýjun samninga á grundvelli þeirra.“

Svo virðist hins vegar sem þessi atriði hafi ekki verið rædd við gerð fyrirliggjandi búvörusamninga þrátt fyrir tilmæli nefndarinnar. Því er þessi tillaga flutt nú.

Fyrsti minni hluti sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eftir að þing kom saman nú í september nokkrar spurningar og bað um svör við þeim og eru í fylgiskjali birtar nokkrar töflur til upplýsinga og fróðleiks. 1. minni hluti harmar og gagnrýnir að ráðuneytið hafi ekki getað svarað spurningum um heildartolltekjur ríkisins af innfluttum landbúnaðarvörum, skipt eftir hinum ýmsu landbúnaðarvörum, og treystir því að svörin liggi fyrir til umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. málsins, en það hefur þegar komið fram að málið verður kallað til nefndar milli umræðna.

Hvers vegna bað ég um þessi svör? Vegna þess að mig fýsir að vita hvaða tolltekjur ríkið hefur af innflutningi á landbúnaðarvörum til að bera það saman við styrki sem veittir eru, og ég nefni nú og kem að því síðar, t.d. tolla sem settir eru á innflutning á svínakjöti, til að bera það saman við þær 440 milljónir sem eru boðaðar í þessum tíu ára samningi, sem þó kemur á fyrstu fimm árunum, til að bera það saman hverjar tolltekjurnar eru á móti því sem ég tel að ríkið verði að leggja fram til þess að koma til móts við svína- og kjúklingabændur varðandi aðbúnaðarreglugerð sem við tökum upp eftir Evrópusambandinu og Evrópusambandið styrkir bændur í löndum sínum til að taka þetta upp.

Ég tel að þegar við ætlum að bera okkur saman við önnur lönd, m.a. að flytja inn landbúnaðarvörur frá ríkjum Evrópusambandsins og öðrum, þurfum við að geta sagt að við séum að gera þetta líkt og hið stóra kaupfélag úti í Brussel.

Hér kem ég að kafla sem heitir Beingreiðslur í mjólk og sauðfjárrækt.

Þar kemur fram að í töflunni megi sjá skiptingu á beingreiðslum í mjólk og sauðfjárrækt skipt eftir sveitarfélögum og kjördæmum landsins árið 2015 ásamt íbúafjölda hvers sveitarfélags. Í töflunni má m.a. sjá hversu mikilvægur landbúnaður er ýmsum veikari byggðum landsins, sem svo hafa verið flokkaðar samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar. Rétt er einnig að minna á að samkvæmt frumvarpinu fellur það í hlut Byggðastofnunar að skilgreina ýmsan byggðalegan stuðning.

Ég vek athygli á því að þetta er fylgiskjal með nefndaráliti mínu sem hægt er að sjá á vef Alþingis, en svolítil vandkvæði komu upp við að taka þessi skjöl sem komu frá ráðuneytinu og líma þau inn í þetta nefndarálit. Ég geri ráð fyrir því að í hinum rafræna heimi geti menn séð þetta vel.

Ég vek athygli á töflunni vegna þess að hún er mjög athyglisverð til að bera saman annars vegar beingreiðslur í mjólk og hins vegar í sauðfé og bera það saman við íbúafjölda og geta svo skoðað það út frá því sem hérna er skrifað inn þar sem menn ætla m.a. varðandi sauðfjárbændur að grípa til sérstakra aðgerða fyrir þá sem búa langt frá þéttbýlisstöðum og eiga þar með erfiðara með að sækja vinnu annað. Það kemur líka fram í nefndaráliti mínu að svo virðist sem sauðfjárbændur geti ekki lifað af búrekstri sínum og þurfi flestallir að sækja vinnu annað.

Í kaflanum um skilaverð til bænda koma fram í meðfylgjandi töflu svör ráðuneytisins við spurningu um skilaverð til sauðfjárbænda síðastliðin tíu ár. Þar má sjá að skilaverð er 597 kr. árið 2015 fyrir dilka og 174 kr. fyrir fullorðið fé. Ljóst er að þessar greiðslur eru ekki háar og skýra m.a. lélega afkomu sauðfjárbænda og það að flestallir bændur þurfa einnig að sinna annarri vinnu. Vert er einnig að hafa þetta í huga ásamt skiptingu beingreiðsla eftir sveitarfélögum að á sumum svæðum eiga sauðfjárbændur um langan veg að fara til að leita sér að annarri vinnu. Taka verður tillit til þess, eins og fyrstu tillögur Byggðastofnunar fjalla um, þ.e. um fjarlægðarstyrki. Þetta er raun og veru árétting á því sem ég var að segja áðan.

Áréttað er einnig að nýlega hafa nokkrir sláturleyfishafar tilkynnt um allt að 10–15% verðlækkun til bænda, sem mun gera afkomu þeirra enn verri, og hafa forustumenn sauðfjárbænda gagnrýnt þá verðlækkun. Þegar nefndarálit þetta var skrifað hafði ekki unnist tími til að funda með stjórn sláturleyfishafa til að fara yfir boðaða verðlækkun og því hvers vegna hún er nauðsynleg að þeirra mati. Undirritaður óskaði eftir þessum gestum fyrir töluverðum tíma síðan og fýsir að vita hvers vegna þetta er nauðsynlegt. 1. minni hluti veltir því fyrir sér hvort slæm útkoma vegna útflutnings spili þarna inn í. Í fylgiskjali við álit þetta er tafla sem ber heitið Skilaverð til bænda.

Ég vil geta þess að á seinni hluta fundar atvinnuveganefndar í morgun kom fulltrúi sláturleyfishafa, Steinþór Skúlason, og flutti okkur mjög góðan pistil um þetta mál og opnaði sýn okkar hvað þetta varðar. Þar á eftir komu fulltrúar frá Landssambandi sauðfjárbænda og formaður Bændasamtakanna og útskýrðu sína hlið. Í raun og veru sannfærðist ég um það eftir þann fund að það eru hlutir að gerast sem við mundum kalla í öðrum samningum jafnvel forsendubrest fyrir þessum hluta búvörusamningsins, þ.e. samningnum við sauðfjárbændur. Ég vil segja það, vegna þess að ég á væntanlega ekki eftir að ræða aftur á Alþingi um búvörusamning, að ég hygg að á næstu árum muni það koma í ljós að ýmislegt á þessu og næsta ári hafi farið á miklu verri veg hvað varðar sauðfjárbændur.

Í töflu um framleiðslu kindakjöts er yfirlit yfir fjölda sláturdýra síðastliðin tíu ár. Þar kemur m.a. fram að um 600 þúsund sláturdýrum var slátrað á síðasta ári þ.e. árið 2015. Framleiðsla í tonnum talið árið 2015 voru 10.185 tonn og innan lands voru það ár seld 6.462 tonn. Enn fremur kemur fram að útflutt voru 2.947 tonn á síðasta ári. Athygli vekur að fjölgun sláturdýra frá árinu 2009 er um 58.000 dýr eða um 1.344 tonn.

Þetta er sett hérna fram m.a. til að draga fram að það sem ég óttast er að framleiðsla á lambakjöti sé að aukast og vandinn þar með að aukast, líkt og kom fram hjá hv. þm. Björt Ólafsdóttur áðan. Það kom að vísu fram á fundi nefndarinnar hjá fulltrúum Landssambands sauðfjárbænda að þarna kynni að vera um að ræða að verið væri að slátra mörgum fullorðnum kindum og verið að minnka ásetning, en það hefur mér ekki gefist tími til þess að skoða og fara í gegnum.

Í kaflanum um útflutning á lamba- og kindakjöti 2014 og 2015 kemur fram að ein spurning mín til ráðuneytisins var um útflutning á lamba- og kindakjöti árið 2014 og 2015, til hvaða landa og hvaða verð hefði fengist fyrir útflutninginn.

Í svari ráðuneytisins kemur fram mjög gagnleg og ítarleg skipting útflutningsins, þ.e. um kjöthluta, til hvaða lands afurð var flutt og hvaða verð fékkst fyrir hana. Í stuttu máli er niðurstaðan eftirfarandi árið 2015: Flutt voru út 2.572 tonn á fob-verði, þ.e. seljandi greiðir flutningskostnað. Fyrir vöruna á þáverandi gengi íslensku krónunnar fengust 1,9 milljarðar kr. eða 761 kr. fyrir hvert kg að meðaltali. Ég til taka það skýrt fram að þetta er að meðaltali. Það er auðvitað mikill munur á því hvort verið er að selja lambalæri eða hrygg eða slög. Í töflunni kemur fram útflutt magn og til hvaða lands svo og meðaltalsverð.

Þetta er mjög athyglisverð tafla í umræðunni um það sem menn hafa sagt að sé forsenda fyrir sauðfjársamningnum, þ.e. að útflutningur aukist og við förum að fá meira verð fyrir útflutt lambakjöt, en eins og ég hef sagt dreg ég það mjög í efa.

Í meðförum nefndarinnar hefur komið fram að áætlaður útflutningur þessa árs er um 3 þúsund tonn. Rétt er að taka fram að miðað við sama verð í erlendri mynt og við styrkingu krónunnar, sem hefur verið undanfarið, megi áætla að um 1,6 milljarðar kr. fáist fyrir sama magn. Einnig hefur komið fram við meðferð málsins í nefndinni að upplýsingar séu farnar að berast um kröfur erlendra kaupenda um lægra verð. Ef það gengur eftir verður minna sem kemur inn fyrir útflutta sauðfjárafurð.

Miðað við að heildarstuðningur til sauðfjársamningsins sé um 5 milljarðar kr. á ári fyrir framleiðslu á 10 þúsund tonnum má áætla að niðurgreiðslur eða útflutningsbætur, sama hvaða orð menn vilja nota, með þessum 3 þúsund tonnum lamba- og kindakjöts séu um 1,5 milljarðar kr. Því má með sanni segja að útflutningur á þessu umframmagni skili þjóðarbúinu engu, þ.e. 1,6 milljörðum kr. af sölutekjum til seljenda en 1,5 milljörðum kr. í greiðslur frá ríkissjóði.

Nú hefur einkum verið fjallað um sauðfjárhluta samningsins í þessu áliti mínu og vill 1. minni hluti taka fram og ítreka að hann telur fjárhagsstöðu sauðfjárbænda afar slæma og verður að taka tillit til þess og til þess að þrátt fyrir allt er íslenskt lamba- og kindakjöt frekar ódýrt, þó svo að skiptar skoðanir séu á því eftir því hvaða hlutar kjötsins er um að ræða. Auðvitað má alltaf takast á um skiptingu verðsins sem neytendur borga fyrir okkar frábæra og heilnæma lambakjöt. Frekari verðlækkun til bænda er enn eitt áhyggjuefnið sem auka mun fjárhagslega misskiptingu. Sauðfjárbændum ber hins vegar að þakka fyrir heilnæma og frábæra vöru sem þeir framleiða.

Í kaflanum um innflutning á svínakjöti, í þeirri töflu, er innflutningi á svínakjöti árið 2014 og 2015 skipt eftir kjöthlutum og útreiknað meðalverð frá ráðuneytinu. Taflan er athyglisverð fyrir margra hluta sakir og dregur fram miklar upplýsingar, eins og t.d. að árið 2015 voru flutt inn 433 tonn af svínasíðum og greitt fyrir það 209 millj. kr. Útreiknað cif-meðalverð á þessum svínasíðum er 482 kr./kg. Það þarf auðvitað ekki að taka fram hvað cif-verð er, þ.e. verð og við bætist flutningskostnaður og tryggingakostnaður. Því miður hefur ráðuneytið, eins og ég hef áður sagt, ekki getað svarað því enn þá hver er innheimtur tollur af öllu þessu svínakjöti er en ítrekuð hefur verið beiðni um svar við því og vonandi berast svör fyrir 3. umr.

Þess má til gamans geta að svínasíður með upprunalandsmerkingu frá Danmörku kostuðu í Bónus nýverið 1.698 kr./kg og á sama tíma kostuðu íslenskar svínasíður í sömu verslun 1.598 kr./ kg. Af því má draga þá ályktun að tollar eru mjög háir á innfluttar svínasíður og verðmunur til neytenda er enginn, m.a. vegna hárra tolla.

Þetta er dregið fram til að vekja athygli á því að við Íslendingar höfum tekið upp landbúnaðarreglugerðir ESB, sem styrkja aðlögun að þeim reglum, en í búvörusamningnum eru aðeins veittar 440 millj. kr. fjárfestingarstyrkir til svínaræktar á samningstímanum, sem eins og ég segi eru fjórum sinnum 98 milljónir og restin á fimmta árinu upp í 440 milljónir.

Í þessum svörum ráðuneytisins eru fleiri töflur, athyglisverðar töflur, sem eru dregnar hér fram til þess að reyna að fá meiri umræðu um annars vegar tollaálögur ríkisins, hins vegar hvað þarf að flytja inn nauðsynlega vegna þess að kjöt vantar, eins og nautgripakjöt, til að reyna að finna út úr því hvað ríkið fær. En eins og ég hef margítrekað eru upplýsingarnar um tollupphæðina enn þá eftir.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti þessu er kynntar breytingartillögur 1. minni hluta svo og ýmis gögn sem hafa verið rakin. Frekari afstaða til málsins mun koma fram við umræðu um málið svo og fyrir 3. umr. þess.

Þetta er gert á Alþingi 30. ágúst 2016, sem er í dag að ég held.

Kristján L. Möller skipar 1. minni hluta.

Virðulegi forseti. Í viðbót við það sem ég sagði í byrjun vil ég segja að nefndin sendi málið til 74 umsagnaraðila og óskaði eftir umsögnum þeirra. 50 aðilar skiluðu umsögn. Það var gegnumsneitt að í mjög mörgum umsögnum var gagnrýndur mjög sá stutti frestur sem gefinn var í vor til að skila umsögnum til nefndarinnar, en hann var sjö dagar. Ég hef gert grein fyrir þeim breytingartillögum sem ég tel hægt að gera miðað við þá vonlausu stöðu sem við alþingismenn vorum settir í, út frá því sem ég rakti í byrjun. Ég vil hins vegar segja að vinnan í nefndinni hefur verið ákaflega góð, og vil ég þakka fyrir það, eins og flest sem við gerum í atvinnuveganefnd. Það hefur verið mikill kostur að hafa fyrrverandi bændahöfðingja, Harald Benediktsson, í nefndinni og sem framsögumann málsins, í raun og veru er hægt að fletta upp í honum eins og alfræðiorðabók hvað þetta varðar. Skal ég segja í lokin að ég held að það sé mjög gott fyrir Alþingi að Haraldur Benediktsson sitji þar áfram á næsta kjörtímabili, hvenær sem það hefst, (ÖS: Heyr, heyr. Hvað með þig?) og þá líka unnanda íslensks landbúnaðar, Össur Skarphéðinsson, (ÖS: Heyr, heyr.) sem gerir töluvert mikið af því að neyta allra þessara landbúnaðarvara eins og sjá má á vexti hans. (Gripið fram í.)

Í tillögu meiri hlutans eru breytingartillögur sem voru tillögur sem ég var búinn að hugsa mér að flytja, eins og sú að auka samráð um gerð samningsins með því að stækka hópinn sem er, fulltrúa launþegasamtaka, neytendasamtaka og annarra sem settir eru þar inn. Jafnframt var ég hlynntur því að svokallaðir upprunamerktir ostar féllu út úr þessu tollabixi ríkisins. Það þarf ekki að beita háum tollum á osta sem ekki eru framleiddir á Íslandi og gera ekkert annað en að skapa svimandi hátt verð á þessum ostum á Íslandi til samanburðar við það sem gengur og gerist í löndum sem þá selja og við berum okkur saman við.

Þetta eru þær tvær tillögur sem mér hugnast hvað best í þessum efnum.

En ég sagði líka þegar málið var tekið út við meiri hluta nefndarinnar, sem hefði e.t.v. orðið til þess að ég hefði hugsað minn gang hvað varðar að taka þátt í að samþykkja þetta, þ.e. hvort við nefndin gætum ekki fallist á að flytja frumvarp um afnám undanþágunnar frá samkeppnislögum, eins og ég gerði að umræðuefni áðan og í stuttu andsvari við framsögumann málsins. En það var ekki. Þess vegna er þessi tillaga sett hér fram, sem er tillaga sem kemur frá Samkeppnisstofnun eftir beiðni nefndarinnar. Eins og ég sagði áðan geri ég þá tillögu að minni. Hvað varðar uppboð tollkvótans um sérmerktu ostana þá teldi ég reyndar að það ætti við um allt það sem þarna er flutt inn.

Virðulegi forseti. Ég hef skýrt breytingartillögur mínar og gert töluvert að umræðuefni stöðu sauðfjárbænda og sauðfjárræktar í landinu. Ég hef ekki farið mikið í nautgriparæktina, mjólkurframleiðsluna. Þar voru áform og ég minnist þess að formaður Bændasamtakanna kom á þingflokksfund Samfylkingarinnar 11. janúar síðastliðinn og útbýtti til okkar gögnum sem voru um eitt aðalmarkmið samningagerðarinnar, þ.e. að afnema framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu. Við vitum hvernig það fór. Það breyttist ásamt kannski ýmsu öðru.

Ég minnist þess líka, sem rétt er að hafa í huga, að umræddur bændahöfðingi, þáverandi formaður Bændasamtakanna, Haraldur Benediktsson, kom eitt sinn, sem hann ætti auðvitað að gera oftar, á þingflokksfund Samfylkingarinnar og sýndi okkur skjámynd sem sýndi mismun á stöðu íslenskra bænda og skandinavískra bænda, hann bar saman fjárhagsstöðu og reikninga bænda. Þar stóð tvennt út af hvað varðar íslenska bændur. Hvað var það nú? Í fyrsta lagi kaup á kvóta. Í öðru lagi fjármagnskostnaður. Ég hygg að þau áform um kvótakaupin hafi verið þau sem Bændasamtökin ætluðu sérstaklega að fjalla um á sínum tíma hvað varðar að afnema framleiðslustýringuna, sem ekki varð svo vegna ágreinings meðal bænda sem fór líka dálítið eftir því, að mér fannst, hvar þeir bjuggu á landinu. Það bíður hins vegar enn einnar atkvæðagreiðslu árið 2019 og verður þá hluti af því sem gert verður síðar í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan höfum við í atvinnuveganefnd reynt að fara sem best í gegnum þetta mál. Ég ítreka það sem ég sagði í byrjun að það er næstum því tilgangslaust vegna þess að margar góðar umsagnir, margar góðar tillögur að umbótum og öðru slíku, er ekki hægt að setja hérna inn út af því vinnufyrirkomulagi sem haft er um gerð búvörusamnings, þ.e. einn, tveir eða þrír ráðherrar fjalla um málið fyrir hönd ríkisins og Bændasamtökin setjast niður og Alþingi stendur fyrir gjörðum hlut og getur í raun ekki gert neinar breytingar, annaðhvort þarf að samþykkja eða hafna og þá fer málið allt upp í loft.