145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir nánast allt það sem hv. þingmaður sagði áðan. Þau rök sem hann færði gegn því að hægt væri að samþykkja samninginn í þeim umbúnaði sem fram kemur hjá meiri hluta nefndarinnar eru að mínu mati algjörlega rétt. Hv. þingmaður gerði að umræðuefni mína persónulegu viðleitni til að eyða vandamálum landbúnaðarins upp á það sem einu sinni var kallað lúðvíska, þegar einn af forverum okkar, Lúðvík Jósepsson, sagði að besta leiðin til að ráða bót á offramleiðslu væri að éta sig í gegnum kjötfjöllin. Ekki ætla ég að ræða það frekar.

Mér er umhugað um sauðfjárbændur á Íslandi. Ég tel að ef menn eru á annað borð að eyða peningum í að greiða niður landbúnaðarframleiðslu verði að beita því tæki þannig að gisnustu byggðirnar séu treystar. Ég sagði strax í upphafi þeirrar umræðu sem fór fram hér fyrr í vetur um búvörusamningana að allt benti til þess að sum gisin svæði sem eru mjög háð sauðfjárrækt, ég nefni t.d. Árneshrepp þar sem stór sauðfjárbú eru sem skipta verulega miklu máli til að halda þeim merka stað í byggð, töpuðu eiginlega greiðslum vegna þessa í hlutfallslega meiri mæli en ýmis bú sem eru á þéttbýlli svæðum sem ekki eru í hættu. Ég hef reynt að grafast fyrir um það hvort einhver breyting hafi orðið á þessu í meðförum nefndarinnar og yfirleitt hvort þetta er rétt. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem hefur áhuga á þessu og situr í nefndinni: Er þetta rétt? Er það þannig að sauðfjárbændur á ýmsum gisnum svæðum beri hlutfallslega skarðari hlut frá borði en aðrir bændur (Forseti hringir.) á svæðum sem ekki eru með jafn veikar stoðir undir sér?