145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður getur sýnt fram á að ekki þurfi undanþágu frá samkeppnislögum til þess að hægt sé að safna mjólk og dreifa henni á sama verði vítt og breitt um landið er ágætt að það komi fram. Ég vil hafa algjöra tryggingu fyrir því að það sé þá þannig en ekki geðþóttaákvörðun hverju sinni. Ég er orðin alveg dauðþreytt á því að allt sem snýr að landsbyggðinni þurfi að sækja með tækjum og tólum og fara bónarveg á hnjánum til þess að fá það. Mér finnst eðlilegt að við sem búum í þessu stóra landi höfum innbyrðis jöfnunarkerfi. Ef lögfræðilega er talið að ekki þurfi þessa undanþágu frá samkeppnislögum ætla ég ekki að standa með því og berjast fyrir því. En það þarf þá líka að vera kvitt og klárt að það dugi annað og það verði ekki geðþóttaákvörðun MS. MS fór langt, langt fram úr sér. Þeir fengu auðvitað sína refsingu. Þeir eiga að fara þannig fram að aðrir sem eru í framleiðslu njóti þess að þeir hafi (Forseti hringir.) sterka markaðsstöðu og þeir geti fengið keypta mjólk á eðlilegu verði, en mér skilst að verið sé að stíga skref í þá átt í þeim breytingartillögum sem eru lagðar hér fram.