145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mér fannst koma vel fram í máli hennar að þetta er vandmeðfarið. Stórnvöld hafa mjög ríkar heimildir til þess að taka á slíkum málum. Mér finnst tillaga hv. þingmanns athyglisverð og við skoðum hana nánar. Ég ætla að vekja athygli á því aftur að þetta gæti skapað misræmi á milli bænda eða milli dýraeigenda þar sem sumar búgreinar njóta ekki stuðnings meðan aðrar hafa þann stuðning sem hér um ræðir. En við förum yfir það síðar.

Í nefndaráliti því sem hv. þingmaður kynnti stendur, með leyfi forseta:

„Vakin skal athygli á því að með ákvæðum fyrirliggjandi samnings er endanlega horfið frá því markmiði sem búvörusamningarnir frá 1991 festu í sessi og fólst í því að miða skyldi stuðning við landbúnaðarframleiðslu við innanlandsneyslu á landbúnaðarafurðum.“

Ég spyr því hv. þingmann: Veruleikinn er sá að frá því snemma á árinu 2000 var raunverulega búið að leggja framleiðsluskyldu eða kvótasetningu sauðfjárræktarinnar til hliðar hér á landi. Ég held við verðum að tala svolítið skýrt í þessum efnum. Er þingmaðurinn að boða að til þess að (Forseti hringir.) takast á við þau verkefni sem hún rekur í nefndarálitinu þurfi að taka aftur upp framleiðslustýringu í sauðfjárrækt? Ég held að það verði að liggja mun skýrar fyrir en svona óljóst orðalag.