145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég verð að taka undir það. Ég varð svolítið hryggur þegar ég sá þetta upplegg, mér fannst vanta í það meiri framsækni og metnað og trú á ýmsa nýja möguleika og að þess sæi stað. Á sínum tíma var sett á laggirnar fyrirbærið Framleiðnisjóður landbúnaðarins, sérstaklega til þess að styðja við búháttabreytingar og nýsköpun. Sá sjóður hefur margt ágætt gert og er enn að því það tókst að halda honum rétt á lífi í gegnum hrunið. Vonir manna stóðu til þess að hann yrði efldur á nýjan leik. Hann hefur átt drjúgan þátt í að stuðla að búháttabreytingum úr hefðbundnum landbúnaði yfir í ferðaþjónustu, yfir í ylrækt eða ýmsa smáframleiðslustarfsemi á býlum o.s.frv. Og hægt væri að gera miklu betur. Staðreyndin er sú að þetta getur orðið alveg ótrúlega fjölbreytt og skemmtileg flóra ef vel tekst til. Maður sér þetta sums staðar annars staðar, eins og í Sviss eða Austurríki, þar sem menn hafa ekkert verið feimnir við að hlúa að þeim fjallahéruðum og svæðum sem þeir ætla að styðja við bakið á, hvort sem það er til að geta séð kýr með bjöllur uppi í hlíðum eða eitthvað annað.

En veruleikinn er sá að ferðaþjónusta og ýmislegt blómstrar á þeim svæðum sem tengt er afurðum beint frá býli, staðbundinni úrvinnslu og mörgu slíku. Þessi þróun fór seint af stað hér. Það er alveg rétt. Og menn geta sagt eins og hv. þingmaður að kerfið hafi verið svolítið staðnað eða stamt í þeim efnum og mætti margt gera betur. Ég get því alveg tekið undir það og samningurinn er pínulítið byggður á þeim gamla grunni, að styðja við þessa hefðbundnu framleiðslu og ég hefði alveg getað hugsað mér að einhverjar áherslur væru beinlínis færðar til og eitthvað af fjármununum fært yfir í meiri aðgerðir sem horfðu til framtíðar og að skapa breiðari grunn. Bændur hefðu þá að vísu orðið að sætta sig við að það væri að einhverju leyti á kostnað stuðningsins við framleiðsluna (Forseti hringir.) ár frá ári en menn væru að fjárfesta í framtíðinni. Menn væru að trúa á að með þessu væri verið að fjárfesta í framtíð búsetunnar í strjálbýlinu.