145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru skarpar umræður í þingsal um þetta mikilvæga mál og er vel, veitir ekki af að takast aðeins á og skiptast á skoðunum því það er alveg ljóst að þær eru margbreytilegar. Það er eitt af því sem hefur hvað skýrast komið fram. Það hefur margt verið skrifað og rætt um þessa búvörusamninga sem við höfum verið að fjalla um í dag og ljóst að sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

Gagnrýnin á vinnubrögðin við gerð þessara samninga er auðvitað til komin vegna lélegs samráðs. Ég tel að hæstv. þáverandi landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hafi gert veigamikil mistök þegar hann var ekki með fleiri aðila í þessu ferli, m.a. fulltrúa þingflokka, því að það lá alveg ljóst fyrir og hefur legið lengi ljóst fyrir að um þetta yrðu skiptar skoðanir, bæði úti í samfélaginu og ekki síst hér á þingi. Svo sem ekkert skrýtið með það, þetta eru stórar fjárhæðir úr sameiginlegum sjóðum okkar landsmanna. Það hefði verið skrýtið ef slíkar fjárhæðir og slíkur samningur hefði ekki valdið einhverjum deilum þegar kæmi að umfjöllun um hann bæði úti í samfélaginu og þegar Alþingi er að afgreiða hann eins og hefur komið í ljós í dag og kom reyndar í ljós strax við 1. umr. málsins. Svo verður auðvitað að gagnrýna hversu seint var farið af stað. Á lokadögum þingsins erum við að afgreiða jafn mikilvægt og viðamikið mál og raun ber vitni þegar gildistími núverandi samninga lá ljós fyrir fyrir margt löngu. Það er ekkert annað en slóðaskapur að ekki skuli hafa verið hafist handa fyrr við að fara í gegnum þessa samninga.

Hvað er búvörusamningurinn og til hvers er hann? Markmiðið ætti að vera að efla íslenskan landbúnað og auka gæði búvörunnar, sérstaklega þegar við horfum til matvælaöryggis, bæta afkomu bændanna og í raun samkeppnishæfni landbúnaðarins í heild. Við viljum efla nýliðun og fjárfestingu bæði í frumframleiðslunni, landbúnaðinum í heild sinni og úrvinnslunni. Öll held ég að við viljum efla rekstrarumhverfi sprotafyrirtækja og stuðla að virðisauka matvæla heima í héraði. Umfram allt kannski að tryggja fæðuöryggi og leggja ríka áherslu á umhverfismálin, þ.e. kolefnisfótsporin. Og kannski ekki síst er það takmarkið að banna að mínu viti innflutning dýraafurða sem framleiddar eru við lakari aðstæður og minni kröfur um aðbúnað en við gerum hér til í innlendu framleiðslunni. Það er eitt af því sem mér hefur þótt skorta svolítið á í umræðunni.

Málið hefur þó tekið einhverjum breytingum í atvinnuveganefnd. Flestar eru þær til bóta. Fulltrúar Vinstri grænna hafa lagt sitt af mörkum þar. Hið fortakslausa endurskoðunarákvæði núna árið 2019 skiptir miklu máli og ekki síður að fresta eigi niðurlagningu verðlagsnefndar mjólkuriðnaðarins og því að taka upp einhvers konar tekjumarkaðsaðferð sem var ekki vel undirbúin og er auðvitað umdeild. Það vantar að mati okkar vinstri grænna töluvert upp á að búvörusamningarnir þjóni markmiðum um sjálfbæran landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu í þágu samfélagsins þar sem við byggjum á sjónarmiðum um umhverfisvernd, dýravernd, velferð og hollustuhætti. Það þarf að kveða mun skýrar á um upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda enda mikilvægt m.a. til að ná þeirri samfélagslegu sátt sem við þurfum svo mikið á að halda í þessu stóra máli og að það ríki traust á milli framleiðenda og neytenda. Þar er skilvirk og trúverðug upplýsingagjöf mikilvæg.

Samningarnir hafa verið gagnrýndir af mörgum og þinginu bárust fjölmargar umsagnir. Fljótt á litið sýnist mér mesta gagnrýnin hafa verið á tímalengdina, þ.e. þessi tíu ár, að verið væri að festa samningana langt inn í framtíðina. Eins og kom fram hjá þeim sem tókust á hér á undan mér þá eru um það mjög skiptar skoðanir. Gagnrýnin hefur ekki síður verið á alla þá miklu fjármuni sem eiga að renna til landbúnaðarmála og þessa samnings og gagnrýni á þau áform að leggja niður framleiðslustýringuna í mjólkurframleiðslunni, ekki síst frá bændum sjálfum. Það átti að byggja til framtíðar á mjög framleiðsluhvetjandi styrkjafyrirkomulagi en þeir knúðu fram endurskoðunarákvæði.

Sauðfjársamningurinn þótti bera skarðan hlut frá borði, sérstaklega gagnvart helstu sauðfjárræktarsvæðunum þar sem fólk hefur búskapinn nánast alfarið að atvinnu. Áhyggjurnar sneru að því að framleiðslan gæti m.a. flust á milli svæða þar sem beitarland væri ekki sérlega gott og ekki síst að aukinn hvati til framleiðslu gæti skapað offramboð af lambakjöti. En sauðfjárbændur komu ekki eins vel út úr þessum samningum og kúabændur. Þeir fengu ekki sams konar rétt til að kjósa um framhaldið. Það er þó breyting á núna því miðað við þær tillögur sem fram eru komnar í atvinnuveganefnd og við erum að ræða er allt saman til endurskoðunar árið 2019. Það er mikilvægt, sérstaklega fyrir sauðfjár- og garðyrkjubændur. Þeir fá þá þennan sama rétt, þ.e. að kjósa sjálfstætt um framhaldið.

Um leið og við ræðum landbúnaðarkerfið og stefnuna þurfum við að ræða um alla virðiskeðjuna og velta fyrir okkur kostnaðarferlinu og hvernig kostnaðurinn verður til. Í umsögn okkar fulltrúa í minni hluta atvinnuveganefndar kemur fram, með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á sjálfbæra landnýtingu í landbúnaðarstefnu sinni og telur mikilvægt að framlög hins opinbera styðji við slík markmið. Sjálfbærnihugtakið felur m.a. í sér að ekki er gengið svo að endurnýjanlegum auðlindum með nýtingu að þær rýrni eða hverfi. Beitarland telst til endurnýjanlegra auðlinda og því er mikilvægt að stilla beit í það hóf að ekki verði tjón á beitarlandinu þannig að auðlindin sem í því felst fari forgörðum. Ákvæði búvörusamninga um nýtingu og vernd gróðurlendis þyrftu að vera afdráttarlausari og mikilvægt er að áform um landgræðslu og kortlagningu gróðurlendis með tilliti til beitarþols þess nái fram að ganga og verði nýtt við framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Þar sem endranær er nauðsynlegt að gæta þess að nýting náttúruauðlinda fari fram með sjálfbærum hætti, hvort sem afurðirnar fara til neyslu innan lands eða á erlenda markaði.“

Þetta er auðvitað afar skýrt. Manni finnst kannski ekki nógu langt gengið í þeim samningi sem hér er undir.

Við höfum lagt á það áherslu að mörkuð verði skýr landbúnaðarstefna með tilliti til loftslagsmála og opinber framlög til landbúnaðar verði skilyrt við eftirfylgni við markmið á því sviði þannig að við náum þeim markmiðum. Við teljum landbúnaðinn afar mikilvægan í samhengi umhverfis- og loftslagsmála. Hér hefur aðeins verið komið inn á notkun endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkugjafa sem er auðvitað afar mikilvæg. Við þurfum að stuðla að slíkri notkun og í þessum samningi er ekki nóg að gert. Tengslin við búvörusamninga þyrftu að vera skýrari þó að eitthvað hafi áunnist í því efni með því sem atvinnuveganefnd hefur tekið til umfjöllunar og lagfært.

Það er komið inn á lífræna framleiðslu. Stuðningur við hana á aðeins að aukast og það á að veita aðlögunarstyrki en eins og sagt er oft í þessu sem öðru, betur má ef duga skal. Við þurfum í því eins og öðru að móta okkur framleiðslustefnu. Ef við ætlum að stefna að því að framboðið á lífrænt ræktuðum landbúnaðarvörum sé í takti við eftirspurnina þurfum við sem neytendur að vera meðvituð um að slík framleiðsla kostar alltaf mun meira en hin hefðbundna. Staðan er því miður sú að fólk sem er í slíkri sprotastarfsemi, þ.e. er að prófa sig áfram í lífrænni framleiðslu, hver svo sem hún er, rekst á veggi eftir ákveðinn tíma og fær ekki viðhlítandi stuðning þótt það sé komið á góðan rekspöl. Við höfum dæmi úr mínu kjördæmi þar sem fólk er í óhefðbundnum landbúnaði, á Karlsstöðum í Berufirði, en þar er Havarí með matvælaframleiðslu. Þar hefur styrkjakerfið t.d. ekki komið heim og saman eins og það þyrfti að gera til að slíkur sproti nái að vaxa sæmilega hratt. Það er eitt af því sem hefði þurft að taka betur á hér. Þótt verið sé að bæta í þetta hef ég áhyggjur af að verið sé að ýta fólki af stað í eitthvað sem stuðningurinn nær svo ekki utan um þegar það þarf á því að halda. Það vantar þolinmótt fjármagn.

Við þurfum líka að fara skipulega í þá vinnu að sjá hvernig landið getur reitt sig á innlenda matvælaframleiðslu miklu meira en nú er. Það er mikilvægt að innlend matvælaframleiðsla og landbúnaðarframleiðsla anni innlendri eftirspurn eftir þessum afurðum. Við þurfum að tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Í því sambandi getum við litið í margar áttir, hvort sem það er til kornræktunar eða bara hefðbundinnar búfjárræktunar eða garðyrkju.

Svo er áhugavert og þörf á að skoða kosti og galla þess að leggja umhverfisgjöld á t.d. innfluttar landbúnaðarafurðir. Af því að hér á eftir á að tala um tollamál þá hljómar það kannski ekki vel í eyrum margra en mér fyndist ástæða til að skoða það þannig að við sem neytendur mundum kannski átta okkur á vistsporinu sem fylgir því að flytja inn ólíkar afurðir og velta fyrir okkur hvort við værum í raun tilbúin að greiða verð sem passar við það. Það er jú fátt mikilvægara held ég en að efla umhverfisvitund neytenda um leið og við styrkjum stöðu innlendra landbúnaðarafurða.

Upprunamerking er mikilvæg í markaðssetningu íslenskra landbúnaðarafurða, hvort sem það er hérna heima eða erlendis. En hún er líka liður í öflugri neytendavernd. Við þurfum að tryggja fullnægjandi merkingar á afurðum og aðföngum hvort sem þær eru innfluttar eða ekki, t.d. með tilliti til notkunar erfðabreytta lífvera við framleiðsluna. Í dag er ekki, mér vitanlega, eftirfylgni með þessu. Ég held að 25. gr. laga um velferð dýra hafi t.d. aldrei verið beitt en hún fjallar um takmarkanir á innflutningi frá öðrum löndum. Við höfum heyrt dæmi um það að verið er að kaupa vörur víðs vegar um heiminn og þeim er jafnvel endurpakkað á Norðurlöndum eða eitthvað slíkt og seldar sem slíkar hingað til lands og víða um heim. Ég spyr mig hvernig ég geti verið viss um að vörurnar sem við flytjum inn komi ekki frá löndum þar sem t.d. barnaþrælkun á sér stað. Hér hefur verið rætt um kjúklingabringur frá Asíu. Fleira hefur verið nefnt í því sambandi. Við þekkjum hvernig háttar til mjög víða í hinum fátækari löndum, þessum stóru löndum þar sem fabrikkurnar eru og börn jafnt sem fullorðnir vinna í óheilbrigðu umhverfi.

Svo er eitt sem mér finnst að við höfum staðið okkur afskaplega vel í, það er sýklalyfjagjöfin. Við takmörkuðum verulega notkun sýklalyfja hér í fóðri. Ég held að það hafi verið mikilvæg ákvörðun sem hefur sett okkur meðal fremstu þjóða í matvælaframleiðslu af því að notkun slíkra lyfja er í algeru lágmarki hér á landi. Það hefur áhrif á lýðheilsu okkar. Það er ekki langt síðan við lásum í fréttum að mikið magn sýklalyfja hefði fundist í dönskum börnum. Ég held að við þurfum um leið að horfast í augu við að það að við gerum þessar miklu kröfur gerir íslenskan landbúnað að mörgu leyti óhagkvæmari en þann sem við keppum við. En ég styð að slíkt sé gert. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa afurðina okkar sem allra hreinasta.

Í þessu sambandi var áhugavert að mér var sagt frá því, þó að við framleiðum kannski ekki mikið af eplum, en ég hafði ekki hugmynd um að í kringum 90% epla koma frá Kína. (ÖS: Ekki miklir tollar af þeim.) Nei. En í sambandi við sýklalyfin þá velti ég fyrir mér: Hvernig haldast þau svona fersk? Ef maður hugsar um það þannig. Mig langar alla vega ekki lengur að borða hýðið. En þetta er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur sem vel vakandi neytendur. Ég held að við getum ekki horft fram hjá velferðarlöggjöfinni sem margir bændur, sérstaklega í framleiðslunni á hvíta kjötinu, hafa þurft að taka á sig, og reyndar kúabændur líka, þar sem er milljarðakostnaður við að innleiða hinar nýju aðbúnaðarreglur sem fylgja aukinni dýravelferð. Ég er mjög ánægð með aukna velferð dýra, en það er alveg ljóst að það er hverfandi stuðningur hér samanborið við samkeppnislöndin, sem við fjöllum væntanlega um á eftir, sem fá aukinn aðgang að okkar markaði. Við þurfum að vera sanngjörn í umfjöllun okkar og bera saman og vera tilbúin að horfast í augu við það hvort við séum að flytja inn lakari vörur frá löndum þar sem aðbúnaður og umgjörð er lakari en hér eða jafnvel vita það ekki og vera þá svo óforskömmuð að horfa fram hjá því og gera svo kröfur hér, horfa í það að hér sé verið að leggja of mikið til þess að framleiða hreina vöru.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að við eigum að nota tækifærið og semja við bændur um að taka fullan þátt í þeim samningum sem við höfum undirritað til að draga úr kolefnisnotkun. Við þurfum að breyta nýtingunni á landinu. Þá má velta fyrir sér hverjir eiga stóran hluta af landi og hverjir þekkja það manna best. Eru það ekki bændurnir? Ég held að við hefðum þurft að taka betur á því hérna en við gerum. Um leið þurfum við að horfa til þess að í markaðssetningu okkar á landinu hefur okkur einhverra hluta vegna ekki tekist að selja miklu meira lambakjöt til útlanda og í markaðssetningu hérna heima hefur okkur ekki tekist að fá túristana til að borða nógu mikið af innlendum matvælum. (ÖS: Við erum ekki að bjóða þeim það.) Þetta þarf nefnilega að kallast á. Markaðssetningin þarf að tengjast innlendum matvælum, sérstaklega svæðisbundnum matvælum. Það á að vera hluti af ferðamannastefnu okkar Íslendinga að gera það, byggja á staðbundinni ferðaþjónustu. Við þurfum að koma þessu áleiðis til erlendra ferðamanna í staðinn fyrir að segja: Þeir vilja bara borða það sem þeir þekkja. Ég held að það sé ekki raunin, en það hefur verið töluvert sagt.

Í dag var talað um að nánast engar hækkanir væru til bænda eða afurðastöðvanna. Hækkandi verð á kjöti virðist þá fara allt til verslunar. Verðlækkun er yfirvofandi hjá sauðfjárbændum sérstaklega, þ.e. í afurðastöðvunum, 10–12% verðlækkun. Þegar þetta leggst ofan á það sem hér er verið að gera og leggja til með tollasamningum og öðru slíku vitum við að það er yfirvofandi að fjöldi sauðfjárbænda gæti lagt upp laupana. Það sjáum við bara í samanburðartölum frá löndunum í kringum okkur. Það liggur alveg fyrir. Það er ekki bundið við Ísland að gera svona samninga eins og hér er verið að gera. Það liggur alveg fyrir hvernig Danir hafa farið út úr því, sérstaklega þeir sem eru með hvíta kjötið. Þar hrundu búin þegar aukinn innflutningur var leyfður og samningum breytt. Við erum ekkert öðruvísi sem eyland og þurfum að vera með báða fætur á jörðinni. Mér finnst ágætt að samningurinn verði endurskoðaður. Það er margt í honum sem þarf að laga eins og hefur verið rakið hér af mínu fólki í dag en líka margt til bóta. En eins og hefur komið fram getum við ekki kvittað undir þennan samning margra hluta vegna. Auðvitað á meiri hlutinn bara að eiga hann, sérstaklega vegna þess að við fengum ekki að koma að þessu máli þegar það var í smíðum.