145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt. Það er kannski eitt af því sem er afar gagnrýni vert. Ég þekki svo sem ekki fjöldann allan af bændum en ég þekki þó nokkra og allir hafa þeir talað þannig að þeir eru tilbúnir til að takast á við það, eins og hv. þingmaður sagði, að sinna sínum siðferðislegu skyldum þegar kemur að loftslagsmálum. Bændur eru ekki einhverjir sem vilja beita þar sem ekki er hagkvæmt að beita, ég fullyrði það, flestallir að minnsta kosti, þótt maður geti ekki alhæft í þessum málum frekar en öðrum. Þess vegna er auðvitað synd að tækifærið sé ekki notað í þessum samningum þar sem ljóst er að flestir bændur þurfa að vinna með, sauðfjárbændur sérstaklega, búskapnum. Að gera samninga við þá um m.a. að efla skógrækt eða hvaða leið sem yrði farin til þess, það er tækifæri sem menn eru hér að láta renna sér úr greipum.

Ég vona svo sannarlega að þegar kemur að endurskoðun samningsins, verði hann samþykktur, höfum við tækifæri til að gera þar á breytingar í þá veru. Það er, eins og hv. þingmaður nefndi, afar sérstakt að koma inn með svo stóran samning sem hér um ræðir, að hann sé ekki reiknaður með afleiðingum úti um allar koppagrundir. Þetta er svona eins og annað sem virðist vera að koma, dettur mér í hug LÍN-frumvarpið sem kemur hálfkarað úr ráðuneyti menntamála. Þetta er eitt af þeim málum sem koma illa undirbúin. Og eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar: Ef samráðið hefði verið haft við alla aðila sem að þessu hefðu átt að koma værum við ekki hér að ræða þetta. Þá hefðum við verið búin að því. Ég held að það væri svoleiðis, virðulegi forseti.