145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er hv. þingmaður kannski sammála fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, Þorsteini Pálssyni, um að það standist ekki ákvæði stjórnarskrár að gera samning til svona langs tíma í ljósi þess að fjárstjórnarvald Alþingis er tryggt samkvæmt stjórnarskrá og ekki sé hægt að binda hendur Alþingis svo langt fram í tímann?

Hv. þingmaður ræddi undanþáguna frá samkeppnislögum. Ég vil undirstrika það að í undanþágunni eins og hún var búin til 2004 var mjólkuriðnaðurinn einmitt ekki undanskilinn eftirliti með misnotkun á markaðsráðandi stöðu, bara á sameiginlegum aðgerðum og samruna. Það sem var hins vegar reynt að gera í þessu frumvarpi af hálfu ráðherrans var að fella niður eftirlit með misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Blessunarlega er ég að vonast til þess að með breytingum sem tókst að láta nefndina gera verði það lagfært. En mun hv. þingmaður styðja tillögu okkar um að afnema undanþáguna með öllu, 71. gr. sem þáverandi hæstv. (Forseti hringir.) sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins árið 2007, Einar K. Guðfinnsson, taldi óþarfa?